Categories
Fréttir

Urðum vitni að forsjálni, dugnaði og hugrekki björgunarsveita

Deila grein

21/01/2016

Urðum vitni að forsjálni, dugnaði og hugrekki björgunarsveita

líneik„Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er gekk aftakaveður tvisvar yfir Austurland í lok síðasta árs, annars vegar óhemju úrkoma samfara miklum leysingum þann 28. desember og hins vegar hvassviðri samfara óvenjulágum loftþrýstingi og hárri sjávarstöðu þann 30. desember. Í bæði skiptin varð verulegt tjón á mannvirkjum og mikið rof á landi. Tjón varð á fasteignum, lausafé, samgöngumannvirkjum og vatns- og fráveitum vegna vatnsflóða og skriðufalla þann 28. desember víða um Austurland, m.a. tugmilljóna króna tjón á vegum. Þann 30. desember varð einnig tjón á fasteignum, lausafé, t.d. bílum og vélum, fráveitum, vegum, flugvöllum og hafnarmannvirkjum, vegna sjávarflóða og foks, einkum á svæðinu frá Djúpavogi á Eskifjörð.
Í þessu veðri urðum við vitni að forsjálni, dugnaði og hugrekki björgunarsveita og fjölda annarra sem forðuðu því að tjónið yrði meira en raun varð á. Margir unnu í kapp við veður og vatn til að forða tjóninu og á nokkrum stöðum komu síðan íbúar saman eftir veðrið og hreinsuðu umhverfið. Allt þetta fólk á miklar þakkir skildar.
Þá vil ég líka vekja athygli á því að forsætisráðherra kallaði strax saman viðbragðshóp ráðuneyta vegna ástandsins á Austurlandi sem hefur haft það hlutverk að afla upplýsinga til að fá yfirýn yfir það tjón sem varð. Sveitarfélögin, Viðlagatrygging, Minjastofnun og fleiri hafa unnið að öflun upplýsinga um tjónið á síðustu vikum og komið þeim áfram til ráðuneytisins. Á næstu dögum ættu því að liggja fyrir heildarupplýsingar um tjónið og að hversu miklu leyti þeir sem urðu fyrir því eiga rétt á bótum. Þá verður farið sérstaklega yfir það tjón sem fellur utan hefðbundinna trygginga og metið hvort og að hvaða marki yrði hugsanlega hægt að bæta það.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.