Categories
Fréttir

Frumkvöðlar eru lykilaðilar til árangurs hvað varðar nýsköpun

Deila grein

24/02/2022

Frumkvöðlar eru lykilaðilar til árangurs hvað varðar nýsköpun

Friðrik Már Sigurðsson, varaþingmaður, reifaði tillögu sína til þingsályktunar um frumkvöðlalaun í störfum þingsins á Alþingi. Tillaga hans kveður á um að Alþingi álykti að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að koma á fót starfslaunum fyrir frumkvöðla með það að markmiði að efla enn frekar nýsköpun í landinu. Sagði Friðrik Már tillöguna vera í samræmi við skýrslu um „Klasastefnu fyrir Ísland“ frá mars 2021 sem tilgreinir frumkvöðla sem lykilaðila til árangurs hvað varðar nýsköpun.

„Með stefnunni er sett fram sú framtíðarsýn að árið 2030 verði Ísland meðal fremstu landa hvað varðar sjálfbæra atvinnuuppbyggingu, samkeppnishæfni og almenna hagsæld,“ sagði Friðrik Már.

„Starfslaun frumkvöðla veita færi á að nýta frumsköpunarkraft grasrótarnýsköpunar og draga fram nýjar lausnir. Innleiðing á hugmyndafræði sjálfræðis í nýsköpun skapar aukið svigrúm fyrir hugmyndaauðgi og getur þannig skilað fleiri og fjölbreyttari lausnum á flóknum viðfangsefnum samtímans,“ sagði Friðrik Már.

Friðrik Már segir að vinna megi að lausnum á mörgum áskorunum samtímans, t.d. með að skapa nýjar lausnir á grundvelli hringrásarhagkerfisins og sjálfbærrar nýtingar auðlinda. Jafnframt orðið áhrifaríkt tæki í byggðaþróun, í samræmi við markmið Klasastefnunnar, að ráðstafa fjármunum til slíkra verkefna.

„Tillögunni er ætlað að efla enn frekar stuðningsumhverfi frumsköpunar og frumkvöðulsstarf í landinu með fjölgun fjölbreyttra atvinnutækifæra og aukna verðmætasköpun að leiðarljósi,“ sagði Friðrik Már að lokum.