Categories
Fréttir

Fullgilding Parísarsamningsins rædd á Alþingi

Deila grein

07/09/2016

Fullgilding Parísarsamningsins rædd á Alþingi


Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu Parísarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Samningurinn, sem samþykktur var í desember síðastliðinn og undirritaður í apríl, skuldbindur ríki heims til að vinna saman að því að bregðast við loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. „Parísarsamningurinn er metnaðarfyllsti loftslagssamningur sem ríki heims hafa gert til þessa og leggur hornstein að stefnu ríkja í loftslagsmálum til framtíðar. Hann snýst um framtíðina og ábyrgð okkar á því hvernig jörð við skilum til barnanna okkar,“ segir Lilja.
„Fullgilding Íslands á Parísarsamningnum nú sendir skilaboð um að við viljum sýna metnað við framkvæmd samningsins og leggja okkar af mörkum til þess að hann hljóti gildi sem fyrst á heimsvísu. Ég vonast því til að Ísland geti fullgilt samninginn sem fyrst,“ segir Lilja. Samningurinn öðlast gildi þegar a.m.k. 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann. Nú þegar hafa rúmlega 20 ríki fullgilt, en mikilvægum áfanga var náð í síðustu viku þegar Bandaríkin og Kína lýstu því yfir að þau væru að fullgilda samninginn.
Aðildarríki Parísarsamningsins setja sér markmið um minnkun losunar, svonefnd landsákvörðuð framlög, og myndar Parísarsamningurinn lagalegan ramma utan um þessar skuldbindingar. Ísland sendi inn sín markmið þann 30. júní 2015 þar sem stefnt er að 40% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2030, miðað við 1990, í samstarfi við aðildarríki ESB og Noreg. Endanlegar skuldbindingar Íslands ákvarðast af samningi þessara þriggja aðila. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki á næsta ári.
„Við höfum góða reynslu af þessu samstarfi á öðru skuldbindingartímabili Kýótó og hér er um eðlilegt framhald á því að ræða. Ísland starfar þarna með mörgum af metnaðarfyllstu ríkjum heims í loftslagsmálum og þar viljum við halda áfram að staðsetja okkur,“ segir utanríkisráðherra. Lilja segir jafnframt sérstakt ánægjuefni að Parísarsamningurinn hafi að geyma ákvæði um að mæta skuli kynjajafnréttissjónarmiðum í tengslum við aðlögun að loftslagsbreytingum og styrkingu innviða, en Ísland hélt þeim sjónarmiðum mjög á lofti í samningaviðræðunum.
Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Parísarsamningsins og texti samningsins
Nánari upplýsingar um loftslagsmál og Parísarfundinn COP21

Lilja Alferðsdóttir – utanríkisráðherra — Photo: Geirix

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is