Categories
Fréttir

Gengur ekki að samþykkt mál þingmanna dagi uppi í ráðuneytunum

Deila grein

01/03/2017

Gengur ekki að samþykkt mál þingmanna dagi uppi í ráðuneytunum

,,Virðulegi forseti. Á Alþingi starfa 63 þingmenn. Helstu verkefni okkar felast í að afgreiða þingsályktanir og lagafrumvörp. Í þá vinnu fara mörg þúsund vinnustundir á ári hverju.
Hæstv. forseti. Það hefur tekið þann þingmann sem hér stendur nokkur ár að komast að því hversu ómarkviss og óskilvirk þessi vinna er oft og tíðum. Við getum gert miklu betur. Dæmi um óskilvirkni er að hér afgreiðum við oft þingmál sem ekki hafa verið kostnaðarmetin. Þingmannamál eru t.d. sjaldnast kostnaðarmetin og hið sama gildir um breytingartillögur nefnda Alþingis. Þar af leiðir að við afgreiðum frá okkur mál sem síðan dagar jafnvel uppi í ráðuneytunum hjá framkvæmdarvaldinu þar sem menn telja sig ekki hafa fjármuni til að framkvæma þau. Dæmi um slíkt verkefni er þingsályktunartillaga sem ég lagði fram og Alþingi samþykkti á síðasta ári. Tillagan gekk út á að fela heilbrigðisráðherra að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir árslok 2016. Velferðarnefnd afgreiddi málið á þann veg að gætt yrði að eftirtöldum atriðum: Að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar og að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir.
Svona afgreiddi Alþingi málið frá sér þann 8. september síðastliðinn. Nú erum við að detta inn í þriðja mánuð ársins 2017. Samkvæmt mínum heimildum hefur ekkert gerst í tæknifrjóvgunarmálinu síðan það var samþykkt í september. Það þykir mér miður þar sem ég veit að fjöldi fólks treystir á að reglunum verði breytt.
Við verðum að laga vinnubrögðin á Alþingi þannig að öll mál sem við samþykkjum hafi raunverulegt gildi og séu ekki bara orðin tóm.”‘
Silja Dögg Gunnarsdóttir 28. febrúar 2017.