Categories
Fréttir

Ekki má breyta fyrri áætlun stjórnvalda um losun hafta

Deila grein

02/03/2017

Ekki má breyta fyrri áætlun stjórnvalda um losun hafta

,,Virðulegi forseti. Sterk erlend staða þjóðarbúsins og styrking krónunnar að undanförnu hafa skapað tækifæri til afnáms fjármagnshafta. Trúverðug áætlun um losun fjármagnshafta hefur skilað miklum árangri og hefur Ísland áunnið sér að nýju traust á alþjóðavettvangi.
Nú berast fregnir af því að stjórnvöld eigi í viðræðum við fulltrúa bandarískra fjárfestingarsjóða til að kanna grundvöll að samkomulagi sem myndi gera þeim kleift að flytja eignir sínar úr landi í skiptum fyrir gjaldeyri. Samtals nema eignir þessara sjóða vel yfir 100 milljarða í aflandskrónum á Íslandi.
Sjóðirnir neituðu á sínum tíma að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands í júní og fallast á skilyrði stjórnvalda eða skiluðu inn tilboðum í útboðið sem Seðlabankinn gat ekki samþykkt. Sjóðirnir hafa kvartað til eftirlitsstofnunar EFTA vegna aðgerða íslenskra stjórnvalda og segjast ætla að láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Í úrskurði sem barst frá ESA í nóvember var hins vegar ekkert gert með athugasemdir sjóðanna heldur sagði að aðgerðir stjórnvalda hefðu verið í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum.
Þeir aflandskrónueigendur sem kusu að taka ekki þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í júní þurfa að sæta því að fjármunir þeirra flytjist yfir á vaxtalausa reikninga um ófyrirséðan tíma. Ég tel afar brýnt að stjórnvöld haldi sig við þá áætlun sem gerð var um losun fjármagnshafta þar sem gengisstöðugleiki og fjármálastöðugleiki í þágu landsmanna var ávallt leiðarstefið í allri vinnu stjórnvalda. Áætlunin hefur notið trúverðugleika og gengið afar vel. Næsta skrefið í losun fjármagnshafta er enn frekari losun á almenning og fyrirtæki í landinu. Því væri það stefnubreyting ef hleypa ætti aflandskrónueigendum með eignir sínar á undan almenningi og fyrirtækjum í landinu.”
Lilja Alfreðsdóttir í störfum þingsins 1. mars 2017.