Categories
Fréttir

Hvers vegna dregst svo að jafna stöðu foreldra með sameiginlega forsjá?

Deila grein

02/03/2017

Hvers vegna dregst svo að jafna stöðu foreldra með sameiginlega forsjá?

,,Hæstv. forseti. Þann 24. september 2015 skilaði starfshópur um jafna stöðu barna niðurstöðum sínum. Niðurstöðurnar voru að gerðar verði breytingar á barnalögum til að jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna og ákveða að ala upp barn saman á tveimur heimilum. Niðurstöður hópsins voru að nýtt ákvæði ætti að koma inn í lögin sem heimili skipta búsetu barns á grundvelli staðfests samkomulags foreldra að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Auk þess eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum varðandi opinberan stuðning, breytingar á lögum um lögheimili og breytingar á barnalögum. Ásamt því er lagt til að sveitarfélög landsins lagi þjónustu sína að breyttum þjóðfélagsháttum og taki þannig virkt tillit til jafnrar ábyrgðar og skyldna foreldra á uppeldi og umönnun barna í málum sem þau varða og falla undir valdsvið sveitarfélaga.
Nú er komið eitt og hálft ár síðan starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum. Einu breytingarnar sem komið hafa fram eru að með nýjum lögum um húsnæðisbætur telst barn til heimilis hjá báðum foreldrum sínum og eru það afar jákvæð skref. En enn er beðið eftir öðrum aðgerðum sem starfshópurinn lagði til. Þess vegna lagði ég á dögunum fram fyrirspurn á hv. Alþingi til hæstv. dómsmálaráðherra þar sem ég spurði hvort unnið væri að lagabreytingum á grunni skýrslu fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum sem lögð var fyrir Alþingi í september 2015. Ef svo væri, hvenær yrðu frumvörpin um málin lögð fram. Ef ekki, hvenær ætlar ráðherra að hefja þá vinnu?
Ég hef fulla trú á að ráðherra svari fyrirspurn minni fljótt og vel þar sem þetta mál er eitt af áherslumálum núverandi hæstv. ríkisstjórnar.
Í stjórnarsáttmálanum segir m.a. að samfélagið eigi að styðja við ólíkar fjölskyldugerðir og hvetja til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali börn sín upp í sátt. Þar kemur jafnframt fram að réttur barna skuli tryggður til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lögheimilum og að aðstaða umgengnisforeldra á lögheimilisforeldra verði jöfnuð.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 1. mars 2017.