Dagur tvö í kjördæmavikunni.
Þingmennirnir okkar og ráðherrar ferðast um landið og fara víða í heimsóknir. Í lok dags eru opnir fundir, en í gær voru þrír fundir haldnir í Bláskógabyggð, Borgarnesi og Mosfellsbæ. Að venju var vel mætt á fundina, en samtöl af þessu tagi eru verðmæt. Þá sérstaklega sem veganesti fyrir þingmenn okkar og ráðherra í áframhaldandi vinnu þeirra.
Í Efsta Dal í Bláskógabyggð var haldinn opinn fundur með Sigurði Inga, Jóhanni Friðriki og Hafdísi Hrönn. Þar var m.a. rætt um búvörusamninga, framleiðslustyrki til bænda, álag á vegakerfið á Suðurlandi, samgönguáætlun, dreifikerfi raforku og orkuskipti.
Í skátaheimili Mosverja í Mosfellsbæ mættu Willum Þór, Ásmundur Einar og Ágúst Bjarni á opinn fund. Með þeim voru bæjarfulltrúar Framsóknar í Mosfellsbæ þau Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs, Sævar Birgisson og Örvar Jóhannsson. Þar var m.a. rætt um málefni hælisleitenda, uppbyggingu hjúkrunarheimila, blóðmerahald, almannavarnir í kjölfar jarðhræringa í Grindavík og núverandi kjaraviðræður.
Í Landnámssetrinu í Borgarnesi ræddu Lilja Dögg, Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý við kjósendur á opnum fundi. Með þeim voru sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Borgarbyggð þau Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar og formaður Kvenna í Framsókn, Davíð Sigurðsson, Eva Margrét Jónudóttir og Sigrún Ólafsdóttir. Rætt var um framtíð Reykjavíkurflugvallar, núverandi kjaraviðræður, uppkaup ríkisins í íbúðarhúsnæði í Grindavík, málefni ferðaþjónustunnar, inngildingu innflytjenda og orkuþörf hér á landi.
Í dag höldum við þrjá opna fundi, á Vopnafirði kl. 18.00 og í Kópavogi og Akranesi kl. 20.00.
- Í húsnæði Siglingafélagsins Ýmir í Kópavogi verða Willum Þór og Ágúst Bjarni ásamt bæjarfulltrúum Framsóknar í Kópavogi.
- Í safnaðarheimilinu á Vopnafirði verða Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna og Þórarinn Ingi.
- Á Dalbraut 4 á Akranesi verða Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý ásamt bæjarfulltrúum Framsóknar á Akranesi.