„Nú erum við í fjárlagavinnunni og erum eðlilega upptekin af þáttum eins og vergri landsframleiðslu, útgjaldaaukningu, aðhaldi og fjármögnun ýmissa málaflokka ríkisvaldsins. Vextir eru háir vegna verðbólgu og markmiðið er að ná verðbólgu niður. Því er gríðarlega mikilvægt að ríkið sýni ábyrgð. Nú er það markmið flestra ef ekki allra kjörinna fulltrúa að auka velsæld landsmanna en það getur verið flókið að meta farsæld út frá mismunandi forsendum og varla hægt að segja að allt sé frábært ef einungis er horft á afmarkaða þætti. Sem dæmi, virðulegi forseti, má segja að ef við horfum á samfélagið í kringum okkur er hagnaður fyrirtækis til að mynda ekki endilega mælikvarði á ánægju starfsmanna, launin okkar til að mynda eru ekki endilega mælikvarði á það hvernig börnunum okkar líður og ekki er verg landsframleiðsla alltaf mælikvarði á hamingju þjóðarinnar,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, í störfum þingsins.
„Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, tók t.d. upp hagvísa árið 2011 sem fanga margvíslegar víddir efnahagslegra og félagslegra framfara. Þar er verið að mæla velferð, umhverfisgæði, gæði opinberrar þjónustu, öryggi og aðgang að heilbrigðisþjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Við Íslendingar höfum verið ofarlega á þessum mælikvarða á undanförnum árum og vorum í þriðja sæti árið 2020. Nýverið komu út lýðheilsuvísar embættis landlæknis og sýna þeir þróun heilsutengdra þátta milli landshluta og hvernig sú þróun er yfir tíma, alveg frábær vinna. Við eigum að taka meira tillit til þessara upplýsinga við fjárlagagerð, fjármálaáætlun og löggjöf almennt hér á landi. Ef við gerum þetta þá leggjum við enn sterkari grunn að velferð samfélagsins til framtíðar,“ sagði Jóhann Friðrik.
Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Nú erum við í fjárlagavinnunni og erum eðlilega upptekin af þáttum eins og vergri landsframleiðslu, útgjaldaaukningu, aðhaldi og fjármögnun ýmissa málaflokka ríkisvaldsins. Vextir eru háir vegna verðbólgu og markmiðið er að ná verðbólgu niður. Því er gríðarlega mikilvægt að ríkið sýni ábyrgð. Nú er það markmið flestra ef ekki allra kjörinna fulltrúa að auka velsæld landsmanna en það getur verið flókið að meta farsæld út frá mismunandi forsendum og varla hægt að segja að allt sé frábært ef einungis er horft á afmarkaða þætti. Sem dæmi, virðulegi forseti, má segja að ef við horfum á samfélagið í kringum okkur er hagnaður fyrirtækis til að mynda ekki endilega mælikvarði á ánægju starfsmanna, launin okkar til að mynda eru ekki endilega mælikvarði á það hvernig börnunum okkar líður og ekki er verg landsframleiðsla alltaf mælikvarði á hamingju þjóðarinnar.
Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, tók t.d. upp hagvísa árið 2011 sem fanga margvíslegar víddir efnahagslegra og félagslegra framfara. Þar er verið að mæla velferð, umhverfisgæði, gæði opinberrar þjónustu, öryggi og aðgang að heilbrigðisþjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Við Íslendingar höfum verið ofarlega á þessum mælikvarða á undanförnum árum og vorum í þriðja sæti árið 2020. Nýverið komu út lýðheilsuvísar embættis landlæknis og sýna þeir þróun heilsutengdra þátta milli landshluta og hvernig sú þróun er yfir tíma, alveg frábær vinna. Við eigum að taka meira tillit til þessara upplýsinga við fjárlagagerð, fjármálaáætlun og löggjöf almennt hér á landi. Ef við gerum þetta þá leggjum við enn sterkari grunn að velferð samfélagsins til framtíðar.“