Categories
Fréttir Greinar

Ísland er lánsamt ríki

Deila grein

22/10/2023

Ísland er lánsamt ríki

Kast­ljós helstu stjórn­mála­leiðtoga heims­ins held­ur áfram að bein­ast að ástand­inu fyr­ir botni Miðjarðar­hafs, sem stig­magnaðist mjög hratt í kjöl­far grimmi­legra árása Ham­as-hryðju­verka­sam­tak­anna í Ísra­el. Svæðið er því miður aft­ur orðið púðurt­unna þar sem hætta er á enn frek­ari stig­mögn­un og opn­un nýrra víg­lína með slæm­um af­leiðing­um. Vís­bend­ing­ar í þessa veru birt­ast okk­ur meðal ann­ars í átök­um Ísra­els­hers og Hez­bollah-sam­tak­anna í Líb­anon sem hafa skipst á skot­um yfir landa­mær­in í norður­hluta Ísra­els. Augu margra bein­ast að Íran sem hef­ur um ára­bil stutt við Hez­bollah- og Ham­as-sam­stök­in, ásamt öðrum víga­hóp­um í Mið-Aust­ur­lönd­um, með vopn­um, þjálf­un og hernaðar­upp­lýs­ing­um.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti ávarpaði þjóð sína á fimmtu­dags­kvöld í fram­haldi af heim­sókn sinni til Mið-Aust­ur­landa í vik­unni. Fór ávarpið fram úr for­seta­skrif­stof­unni sjálfri sem þykir til marks um al­var­leika máls­ins, en þetta var aðeins annað ávarp for­set­ans til þjóðar sinn­ar með þeim hætti. Biden fór meðal ann­ars yfir þá var­huga­verðu stöðu sem er uppi í heim­in­um, þar sem stríð geis­ar í Evr­ópu vegna ólög­legr­ar inn­rás­ar Rússa í Úkraínu og hins veg­ar stríðið milli Ísra­els og Ham­as.

Þetta eru sann­ar­lega viðsjár­verðir tím­ar sem við lif­um á og ekki síst í ljósi þess að enn skýr­ari skil í alþjóðastjórn­mál­un­um virðast vera að teikn­ast upp, þar sem til að mynda hernaðarleg sam­vinna Rúss­lands, Írans og Norður-Kór­eu hef­ur auk­ist til muna. Í því sam­hengi má nefna að Norður-Kórea hef­ur ákveðið að sjá Rúss­um fyr­ir vopn­um og skot­fær­um fyr­ir stríðsrekst­ur þeirra í Úkraínu, líkt og Íran­ir hafa gert um tals­vert skeið. Því hef­ur meðal ann­ars verið velt upp hvort með þýðari sam­skipt­um sín­um við Norður-Kór­eu séu Rúss­ar að búa sér til sterk­ari stöðu á Kór­eu­skag­an­um, þar sem ástandið er nú þegar viðkvæmt milli Norður- og Suður-Kór­eu.

Á hinn bóg­inn urðu vatna­skil í vest­rænni sam­vinnu í kjöl­far inn­rás­ar Rússa í Úkraínu og hef­ur hernaðarsam­vinna Vest­ur­landa stór­auk­ist í kjöl­farið. Blað var brotið í sögu Evr­ópu­sam­bands­ins þegar það stóð í fyrsta sinn fyr­ir bein­um hernaðarstuðningi við Úkraínu og öfl­ug ríki inn­an sam­bands­ins, líkt og Þýska­land, hafa stór­aukið fram­lög sín til varn­ar­mála.

Ísland er lán­samt ríki að mörgu leyti. Ný­verið var til­kynnt að Ísland væri ör­ugg­asta ríki heims sam­kvæmt Alþjóðlegu friðar­vísi­töl­unni (e. Global Peace Index), en það er 15. skiptið í röð sem það ger­ist. Það að búa við frið og ör­yggi er því miður ekki sjálfsagt í heim­in­um eins og nú­tím­inn ber glögg merki um. Ísland hef­ur tekið rétt­ar ákv­arðanir í gegn­um tíðina, til dæm­is með stofnaðild sinni að Atlants­hafs­banda­lag­inu 1949 og samn­ingi um tví­hliða varn­ar­sam­starf við Banda­rík­in 1951. Við sem þjóð verðum að halda áfram að vera á tán­um, á sama tíma og við stönd­um með al­menn­um borg­ur­um, sem því miður fara alltaf verst út úr stríðsátök­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2023.