Categories
Fréttir

„Grunnþjónusta áfram undanþegin aðhaldi“

Deila grein

07/06/2023

„Grunnþjónusta áfram undanþegin aðhaldi“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í störfum þingsins. Ríkissjóður styrkist mjög miðað við fyrri áætlanir, er staðan nú 90 milljörðum betri samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans. Þá verður framkvæmdum frestað tímabundið, s.s. nýbygging Stjórnarráðsins og samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila.

„Sannarlega ábyrgt og mikilvægt skref sem styður við aðgerðir Seðlabanka Íslands, spornar gegn þenslu og mætir hópum sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana,“ sagði Líneik Anna.

„Grunnþjónusta er hins vegar áfram undanþegin aðhaldi. Um það ríkir sátt. Engin aðhaldskrafa er gerð á almannatryggingar, sjúkratryggingar og heilbrigðis- og öldrunarstofnanir,“ sagði Líneik Anna.

Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar mun verja kaupmátt örorku og ellilífeyrisþega og hann hækka um 2,5% frá miðju ári til viðbótar við þá 7,4% hækkun í upphafi ársins. Þá mun frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda verða hækkað um 2,5% fyrir yfirstandandi ár, afturvirkt frá áramótum, til viðbótar við hækkun um 7,4% í upphafi ársins.

„Stöðugleiki á húsnæðismarkaði er forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Því verða stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána aukin enn frekar,“ sagði Líneik Anna.

Í aðgerðaráætluninni er gert ráð fyrir að 1000 íbúðir verði byggðar árlega 2024–2025, með stuðningi ríkisins. Þá stendur yfir vinna um lagabreytingar um bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði, svo að draga megi úr þrýstingi á húsnæðismarkaði.

„Þessar aðgerðir og fleiri til munu styðja við aðgerðir Seðlabanka Íslands og sporna gegn þenslu,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðir til að vinna gegn hárri verðbólgu og frekari hækkun vaxta. Þetta er til viðbótar við þá skýru stefnu sem birtist í framlagðri fjármálaáætlun. Sannarlega ábyrgt og mikilvægt skref sem styður við aðgerðir Seðlabanka Íslands, spornar gegn þenslu og mætir hópum sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana.

Afkoma ríkissjóðs stórbatnar áfram miðað við fyrri áætlanir, en samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er afkoma nú 90 milljörðum betri en gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga. Framkvæmdum verður frestað tímabundið. Meðal verkefna sem er frestað eru nýbygging Stjórnarráðsins og samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila. Grunnþjónusta er hins vegar áfram undanþegin aðhaldi. Um það ríkir sátt. Engin aðhaldskrafa er gerð á almannatryggingar, sjúkratryggingar og heilbrigðis- og öldrunarstofnanir. Til að verja kaupmátt örorku og ellilífeyrisþega verður lífeyrir almannatrygginga nú hækkaður um 2,5% frá miðju ári til viðbótar við þá 7,4% hækkun í upphafi árs. Frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda verður hækkað um 2,5% fyrir yfirstandandi ár, afturvirkt frá 1. janúar, til viðbótar við hækkun um 7,4% í upphafi árs.

Virðulegi forseti. Að lokum: Stöðugleiki á húsnæðismarkaði er forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Því verða stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána aukin enn frekar þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega 2024–2025, með stuðningi ríkisins, verða þær 1.000 á ári. Þá er unnið að lagabreytingum sem bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði og leitað leiða til að draga úr þrýstingi á húsnæðismarkaði. Þessar aðgerðir og fleiri til munu styðja við aðgerðir Seðlabanka Íslands og sporna gegn þenslu.“