Categories
Fréttir

Guðveig afhendir ráðherra skýrslu um bættar aðstæður kjörinna fulltrúa

Deila grein

25/11/2022

Guðveig afhendir ráðherra skýrslu um bættar aðstæður kjörinna fulltrúa

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók í dag við lokaskýrslu verkefnisstjórnar um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa úr hendi Guðveigar Eyglóardóttur, formanns verkefnisstjórnarinnar. Skýrslan hefur að geyma 15 tillögur um hvernig draga megi úr álagi, stuðla að sanngjarnari kjörum, bættum vinnuaðstæðum og samskiptum kjörinna fulltrúa, sín á milli og við almenning. 

Verkefnið er hluti af gildandi aðgerðaáætlun stjórnvalda á sviði sveitarstjórnarmála. Því er ætlað að bæta aðstæður kjörinna fulltrúa í þeim tilgangi að vinna gegn óvenjumikilli endurnýjun fulltrúa í sveitarstjórnum. Endurnýjunarhlutfall í sveitarstjórnum hefur hækkað milli sveitarstjórnarkosninga á síðustu árum og er nokkuð hærra meðal kvenna (70%) en karla (50%). Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum er þó hvergi hærra á Norðurlöndunum en á Íslandi eða 51%.

Tillögurnar byggja m.a. á tveimur nýlegum úttektum, annars vegar á reynslu og viðhorfi kjörinna fulltrúa og hins vegar á misbeitingu valds í menningu íslenskra sveitarstjórna. 

Nokkrar af tillögum verkefnisstjórnarinnar fela í sér ákall um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Þar er hægt að nefna að kjaraákvæði sveitarstjórnarlaga verði endurskoðað í þeim tilgangi að stuðla að sanngjörnum kjörum fulltrúa, tryggja að þeir verði ekki fyrir launatapi og njóti eðlilegra kjara á vinnumarkaði. Mælt er með að teknar verði upp svokallaðar barnagreiðslur að danskri fyrirmynd til kjörinna fulltrúa með börn undir 10 ára aldri á sínu framfæri, m.a. til að standa straum af kostnaði við barnagæslu og koma til móts við annað óhagræði foreldra ungra barna af fundum utan hefðbundins vinnutíma.

Með sama hætti er lagt til að metið verði hvort ástæða sé til að endurskoða ákvæði sveitarstjórnarlaga um rétt kjörinna fulltrúa til upplýsinga og rétt íbúa til upplýsinga um starfsemi sveitarfélagsins ásamt því að skoðað verði hvort ástæða sé til að rýmka viðmið um fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Af öðrum tillögum er hægt að nefna tillögur um bætt vinnufyrirkomulag, aukna fræðslu og stuðning við kjörna fulltrúa. Með sama hætti er lagt til að Samband íslenskra sveitarfélaga hvetji sveitarstjórnir til þess að setja sér samskiptasáttmála og móta viðeigandi ferla við brotum á sáttmálanum.

Fagteymi vegna eineltis, ofbeldis og áreitni

Lagt er til að fulltrúar ríkis og sveitarfélaga taki höndum saman um stofnun fagteymis til að vernda kjörna aðal- og varafulltrúa í sveitarstjórnum og á Alþingi gagnvart einelti, ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni. Fagteymið taki við beiðnum um aðstoð, meti, komi í viðeigandi farveg og eftir atvikum fylgi eftir tilkynningum sem því berist og tryggi að þær fái viðhlítandi málsmeðferð. Á vegum fagteymisins verði komið upp miðlægum, gagnagrunni með almennum upplýsingum, lagaramma og úrræðum í tengslum við áreiti og ofbeldi af ýmsu tagi. Jafnframt verði litið til þess hvernig hindra megi áreitni í garð kjörinna fulltrúa á viðburðum á vegum sveitarfélaga og samtaka þeirra.

Rannsókn á starfsaðstæðum sveitarstjórnarfólks leiddi í ljós að 35% kjörinna fulltrúa áttu í samskiptavanda á síðasta kjörtímabili, oftast (86%) við kjörinn fulltrúa í eigin sveitarfélagi. Hátt í fjórðungur (24,8%) hafði orðið fyrir kynferðislegri áreitni á tímabilinu, oftar konur (35,8%) en karlar (14,5%), og oftast (35%) af hendi kjörins fulltrúa í öðru sveitarfélagi. Nærri jafnalgengt var að kjörnir fulltrúar hafi orðið fyrir kynbundnu áreiti (23,4%). 

Eftirtaldir skipuðu verkefnisstjórnina:

Innviðaráðuneytið

  • Guðveig Eyglóardóttir (formaður)
  • Gauti Jóhannesson

Forsætisráðuneytið

  • Bjarki Hjörleifsson

Samband íslenskra sveitarfélaga

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 24. nóvember 2022.

Mynd: stjornarradid.is