Categories
Fréttir

Gunnar Bragi ræddi málefni landbúnaðar og sjávarútvegs við framkvæmdastjóra Evrópusambandsins

Deila grein

28/04/2016

Gunnar Bragi ræddi málefni landbúnaðar og sjávarútvegs við framkvæmdastjóra Evrópusambandsins

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraGunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra átti í dag fundi með þeim Phil Hogan, framkvæmdastjóra landbúnaðarmála og Karmenu Vella, framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu.

 Á fundinum með Hogan voru ræddar reglur Evrópusambandsins sem varða lífrænan landbúnað en þær leyfa ekki notkun fiskimjöls sem fóðurgjafa. Einnig ræddu þeir nýgerðan samning milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

Gunnar Bragi og Karmenu Vella ræddu stöðuna í viðræðum strandríkja við NA Atlantshaf um skiptingu deilistofna. Báðir lýstu þeir yfir vilja til að starfa náið saman að lausn þeirra mála. Málefni bláa hagkerfisins, sem er hvers konar efnahags starfsemi á haf- og strandsvæðum (blue economy), voru rædd. Þar sagði Vella að Íslendingar væru Evrópusambandinu góð fyrirmynd. Þeir ræddu einnig málefni hafsins (ocean governance) og málefni norðurslóða. Báðir voru þeir sammála um að nýting auðlinda yrði að byggja á bestu vísindarökum þannig að sjálfbærni væri sem best tryggð. Gunnar Bragi lýsti þeirri sýn Íslands hvernig ábyrgð og ákvarðanir um nýtingu náttútuauðlinda á sjálfbæran hátt væri best fyrirkomið á staðbundinn og svæðisbundinn hátt en yfirþjóðleg þegar því sleppti.

Að endingu ræddu þeir Gunnar Bragi og Vella tvíhliða samkomulag Íslands og Evrópusambandsins um fiskveiðimálefni frá árinu 1992. Samkomulagið var gert í tengslum við gerð EES samkomulagsins en hefur verið óvirkt um nokkurra ára skeið. Þeir urðu ásáttir um að skoða leiðir til að endurvekja og endurnýja samkomulagið. Verður embættismönnum beggja aðila falið að funda á næstunni vegna þessa.

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is/sjavarutvegs-og-landbunadarmal