Categories
Fréttir

„Hakúna matata“

„Í dag er lögð mikil áhersla á læsi barna sem hefur farið hnignandi. Textun efnis gæti eflt læsi barna. Það er samt ekki aðeins textun á barnaefni sem er ábótavant heldur textun á öðru íslensku efni, svo sem kvikmyndum og þjóðfélagslegri umræðu í sjónvarpi. Í byrjun faraldurs var vel staðið að textun á sjónvarpsefni fyrir heyrnarskerta. Þá var ánægjulegt að sjá táknmálið sýnilegt. En betur má ef duga skal og er því mikilvægt að nýta þá reynslu sem fékkst af þessu, að halda áfram á sömu braut. Óskastaðan væri sú að við stjórnmálamenn gætum sagt „hakúna matata“ í þessum málum, en þangað til er það okkar að þrýsta á þetta réttlætismál,“ sagði Halla Signý að lokum.

Deila grein

04/02/2021

„Hakúna matata“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, vakti máls á talsettu efni á efnisveitunni Disney+, sem varð aðgengileg Íslendingum í fyrra, í störfum þingsins á Alþingi í gær.

„Nokkur umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum síðustu daga um skort á talsettu efni á efnisveitunni Disney+, sem varð aðgengileg Íslendingum í fyrra. Íslenskusérfræðingar og ráðamenn hafa vakið athygli á þessu og sent áminningu til Disney um málið. Það er vel því að við viljum vernda íslenska tungu, tungumálið, sem er í hættu ef við stöndum ekki vörð um það,“ sagði Halla Signý.

„En við þurfum að líta okkur nær. Textun innlends sjónvarpsefnis heyrir nánast til undantekninga í íslensku sjónvarpi. Textun innlends efnis myndi gagnast tugþúsundum landsmanna. Jafnvel erlent barnaefni vantar textun og heyrnarskertir krakkar, sem eiga erfitt með að fylgjast með talmáli, missa því af barnaefni. Það hefur verið baráttumál heyrnarskertra að íslenskur texti fylgi ávallt því myndefni sem innlendar fjölmiðlaveitur miðla, og þá texti sem endurspeglar texta hljóðrásar myndefnis eins nákvæmlega og kostur er. Frumvarp þess efnis hefur nokkrum sinnum verið lagt fram af hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, nú ráðherra, en ekki náð fram að ganga, sem er miður,“ sagði Halla Signý.

Um 200 börn og unglingar þurfa á heyrnartækjum að halda hér á landi. Einnig eru um 15% þjóðarinnar heyrnarskert að einhverju leyti.

„Í dag er lögð mikil áhersla á læsi barna sem hefur farið hnignandi. Textun efnis gæti eflt læsi barna. Það er samt ekki aðeins textun á barnaefni sem er ábótavant heldur textun á öðru íslensku efni, svo sem kvikmyndum og þjóðfélagslegri umræðu í sjónvarpi. Í byrjun faraldurs var vel staðið að textun á sjónvarpsefni fyrir heyrnarskerta. Þá var ánægjulegt að sjá táknmálið sýnilegt. En betur má ef duga skal og er því mikilvægt að nýta þá reynslu sem fékkst af þessu, að halda áfram á sömu braut. Óskastaðan væri sú að við stjórnmálamenn gætum sagt „hakúna matata“ í þessum málum, en þangað til er það okkar að þrýsta á þetta réttlætismál,“ sagði Halla Signý að lokum.