Categories
Fréttir

Haldinn fundur og hvað svo …?

Deila grein

28/03/2017

Haldinn fundur og hvað svo …?

„Virðulegi forseti. Ég vil tala hér um fyrirhugaðar uppsagnir HB Granda á Akranesi. Í gær var haldinn fundur með þingmönnum Norðvesturkjördæmis, bæjarstjórn og Verkalýðsfélaginu á Akranesi að frumkvæði hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur. Ég þakka kærlega fyrir hve menn hratt brugðust við til að ná saman á þeim fundi. Við erum aðeins farin að ræða þetta mál í störfum þingsins. Ég kem hingað upp og óska eftir því að ekki aðeins verði haldinn þessi fundur að frumkvæði áðurnefnds þingmanns heldur verði líka haldinn fundur hér innan þings. Ég vil hvetja formann fjárlaganefndar, sem er einn af þingmönnum kjördæmisins, til að funda um málið. Hér er verið að kalla eftir því að lækka gjöld á sjávarútveginn, sem ég set að vísu ákveðið spurningarmerki við. Einnig er verið að tala almennt um kvótakerfið í heild sinni. Ég vil því hvetja hv. þm. Pál Magnússon, formann atvinnuveganefndar, til að funda um þetta mál.
Ef það er fyrst og fremst kvótakerfið sem er ástæðan fyrir þessu er mjög mikilvægt að fara yfir það. Ég hef hins vegar verulegar áhyggjur af því að þetta tengist ekki bara þessu fyrirtæki eða ákvörðun þess um rekstur sinn, heldur geti þetta endurspeglað gengisþróunina, sem við ræðum hér á eftir, og erfiðari stöðu útflutningsgreinanna, en þá erum við farin að tala um miklu stærra mál.
Ég starfaði sjálf fyrir sjávarútvegsfyrirtæki fyrir hrun, fyrirtæki sem átti í miklum rekstrarerfiðleikum, ekki hvað síst vegna gengisþróunarinnar. Það er mjög mikilvægt að við hugum að útflutningsgreinunum okkar og gætum að því að ganga ekki á undirstöðuatvinnugreinarnar í samfélagi okkar. Það eru útflutningsgreinarnar. Við eigum eftir að ræða það frekar hér síðar í dag.“
Eygló Harðardóttir í störfum þingsins 28. mars 2017.