Categories
Fréttir

Hátíðarræða formanns 17. júní 2017

Deila grein

20/06/2017

Hátíðarræða formanns 17. júní 2017

Kæru sveitungar og gestir – gleðilega þjóðhátíð!
Það er margt sem gaman væri að tala um hér í dag. Á stundum sem þessum horfum við gjarnan um öxl og vegum og metum, hvort við höfum gengið götuna áfram til góðs í gegnum árin og áratugina. Á því er engin vafi, í mínum huga, að nú um stundir er velsæld þjóðarinnar, mæld á efnahagslega mælistiku, meiri en nokkru sinni áður á lýðveldistímanum. Þeim árangri má þakka mörgu og mörgum.  Ekki síst þeim kynslóðum sem á undan okkur fóru og skópu jarðveginn fyrir það nútíma Ísland sem við þekkjum í dag. Á þjóðhátíðardaginn minnumst við þeirra sem börðust í sveita síns andlits við að búa okkur betra samfélag. Skuld okkar við þau verður aldrei að fullu greidd.  Næst því komumst við helst með því að rækja þá skyldu okkar að skila landi og samfélagi ekki verr, og helst nokkru bættara til komanda kynslóða og að ala upp í börnum okkar og barnabörnum, virðingu fyrir landinu okkar, samfélaginu og hvert öðru. Það eru vissulega áskoranir framundan í efnahagsmálum og ýmis verkefni óleyst, en þau eru öll þess eðlis að í augum fyrri kynslóða myndu þær áskoranir kallast lúxusvandamál. Það er samt mikilvægt að takast á við þau verkefni, eins og að stöðug styrking krónunnar mun að lokum koma okkur í koll ef ekki verður unnið að því að finna jafnvægi og það sem fyrst. Ísland er auðugt land, land sem býr við gnægð auðlinda og mannauð mikinn. Þann auð ber okkur að nýta til að tryggja sem best að á Íslandi þurfi enginn að líða skort. Það er stórt verkefni sem ekki verður leyst í einu vetfangi, og það verður aðeins leyst þannig að við leggjumst öll á árar – saman.
Allt eru þetta mikilvæg mál og reyndar mörg fleiri.
En það er tvennt sem mig langar mest til að tala um hér í dag. Annars vegar þá lukku að hafa fæðst og alist upp í þessu samfélagi okkar hér, kosti þess og galla. Hinsvegar að hvetja allt unga fólkið okkar til dáða, vegna þess að það, eins og ég, er svo heppið að fá að alast upp í þessu umhverfi.  Oft hef ég haft það á orði að lítil samfélög, á landsbyggðinni eins og okkar samfélag hér í Hrunamannahreppi, eða jafnvel í uppsveitunum öllum og öllum sambærilegum samfélögum, að slík samfélög kalli margt það besta fram í okkur mannfólkinu.  Vegna fámennis verður hver og einn stærri og einstaklingurinn finnur að hann verður að taka þátt – jafnvel í mörgu. Því ef við í fámenninu viljum hafa sterkt félagslíf, menningarlíf, íþróttalíf og ekki síst atvinnulíf þá vitum við að skyldur okkar til að taka þátt eru meiri en þar sem fleiri búa og einstaklingurinn getur falið sig á bakvið fjöldann. Við einfaldlega eigum allt undir að hér sé allt það sem mannlegt eðli óskar sér. Frumþarfir eru atvinnulíf, góðir skólar, öflug heilsugæsla og þak yfir höfuðið. Hitt er ekki síður mikilvægt að eiga fjölbreytt og öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarf, starfsemi hagsmunafélaga, líknar- og mannúðarfélaga og svo mætti lengi telja.
Og, já ég reyndi að telja. Í þeirri talningu er auðvelt að fara yfir tuttugu mismunandi félög og jafnvel mun hærra ef allar deildir mismunandi félaga eru taldar sér. Nokkrar þær helstu má nefna. Sveitarstjórn með sínar stofnanir og nefndir, UMFH með sitt öfluga starf í mörgum deildum, Kvenfélagið, Björgunarsveitin Eyvindur og Vindur, Landgræðslufélag, hagsmunafélög-hrossabænda, nautgripabænda , sauðfjárbænda, garðyrkjubænda, allir kórarnir og svo framvegis. Við eigum sannarlegan öflugan mannauð í 800 manna samfélagi. En það gerist ekki af sjálfu sér, það þarf fólk til að taka þátt. Það er einmitt það jákvæða við okkar samfélag, fólk tekur þátt og það eru tækifæri til að láta til sín taka.
Í senn er það bæði þroskandi og gefandi að axla skyldur sínar í lýðræðislegu samfélagi, en ekki einungis krefjast réttinda sinna. Um leið er það undirstaða lýðræðisins sjálfs sem við fögnum hér í dag. Af þeim ástæðum tel ég það hafa verið mín forréttindi að hafa alist upp hér. Fengið haldgóða menntun á heimaslóð, tekið þátt í starfi UMFH, sveitarfélagsins, kirkju og kóra ásamt mörgu öðru sem samfélagið hér hefur gefið mér, fyrir það er ég og verð ævinlega þakklátur. Á stundum er talað um að gallar séu á litlum samfélögum að allir viti allt um alla. En ég spyr – er það ekki ein útgáfan á náungakærleik að vilja fylgast með og geta gripið inní eða þá létt undir ef eitthvað bjátar að hjá einhverjum?
Við finnum vel og þekkjum öll samstöðuna, stuðninginn og styrkinn sem maður fær þegar áföll dynja yfir, sorgin ber að dyrum. Sá stuðningur sem nærsamfélagið veitir er ómetanlegur, trúið mér – hér talar maður af reynslu. Vissulega eru gallar á fámennum samfélögum, til að mynda minni fjölbreytni meðal annars í atvinnulífi. Afl fjöldans er veikara, en eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni þá eru á móti kostirnir þeir að hver einstaklingur er og verður að vera stærri til að vega slíkt upp, það er áskorunin við að búa í smærri samfélögum.
Kæru þjóðhátíðargestir,
það sem ég vildi segja að lokum og um leið beina orðum mínum til unga fólksins, ungu fólki á öllum aldri. Við búum í samfélagi jöfnuðar þar sem allir eiga jafnt tilkall til sömu tækifæra, til menntunar, til starfsframa, til heilbrigðs lífs. Vissulega er það svo að sumir þurfa að hafa meira fyrir því en aðrir, en það er hægt. Hver er sinnar gæfu smiður. Við stjórnmálamenn eigum að tryggja að slíkt samfélag þróist áfram í þá átt. Á Íslandi á að vera meiri jöfnuður en víðast. Við erum fá, þekkjum öll hvert annað eða erum skyld eða tengd. Auðlindir okkar eru gjöfular, þannig að 340 þúsund manna þjóð getur öll haft það gott á Íslandi.
En veldur hver á heldur. Hver og einn þarf að setja sér markmið og vinna að þeim. Þess vegna er gott að alast upp, búa og starfa í okkar samfélagi. Hér eru tækifærin til að hafa mikil áhrif, bæði á sína eigin framþróun en einnig á nærsamfélagið. Það er mín reynsla, að óháð fæðingarstað og búsetu getum við íbúar Íslands náð markmiðum okkar. Aðalatriðið er að vera virkur samfélagsþegn og hafa gaman að vinna að uppbyggingu samfélagsins okkar.  Þannig tryggjum við lýðræðið og getum haldið upp á þjóðhátíðardaginn 17. júní um ókomna framtíð.
Góðar stundir.