Categories
Fréttir

Hátíðarræða Sigurðar Inga forsætisráðherra á 17. júní

Deila grein

17/06/2016

Hátíðarræða Sigurðar Inga forsætisráðherra á 17. júní

Sigurður Ingi JóhannssonGóðir landsmenn, gleðilega hátíð.
Við sem jörðina gistum erum reglulega minnt á að samtíminn virðist stundum hafa harla lítið forspárgildi um framtíðina. Það er nefnilega þannig að hraði samtímans býður sjaldnast upp á að staldrað sé við og gaumgæft. Enda veltur tímans hjól fram veginn, en ekki aftur.
Líf okkar byggist á því sem áður hefur gerst. Hið liðna bærist með okkur í dag og mótar okkur og stýrir. Um leið reynum við að læra af þeirri þekkingu sem fortíðin hefur fært okkur og nýta hana til framtíðarverka. Staðan sem við Íslendingar erum í er summan af því sem liðið er. Væntanlega má halda því fram að land og þjóð hafi þokast fram veginn í ýmsum efnum þegar litið er eitt hundrað ár eða svo aftur í tímann.
Sú kynslóð sem stóð í stafni árið 1900 hafði aðrar væntingar og vonir en aldamótakynslóðin árið 2000. En vinna og þrautseigja hinnar fyrri lagði grunninn að því samfélagi sem við lifum í. Hún skilaði af sér góðu búi og það er sú skylda sem hvílir á okkur öllum, sama hvaða tíma við lifum, að skila af okkur góðu búi.
Upp úr síðustu aldamótum fór hér allt að ganga vel, jafnvel svo að undrum sætti. Gengu þá margir heldur rösklegar um gleðinnar dyr en hollt gat talist. Því fór sem fór og margir efuðust um að Íslendingar gætu verið þjóð meðal þjóða, svo beygð sem hún var. Fáir munu halda því fram í dag að framtíðin sé dökk. Nú er sannarlega lag að bæta kjör allra og færa til betri vegar ýmislegt sem miður fór.
Stjórnmálamönnum, sá er hér stendur er þar ekki undanskilinn, er tamt að tala um tækifæri, alls konar tækifæri sem bíða þess að verða gripin og nýtt til hins ýtrasta til hagsbóta fyrir land og þjóð. Það er rétt að tækifæri Íslands eru mörg og mikil, þjóðin ung og framtakssöm og þekking á atvinnuháttum góð. En við erum fá sem búum hér. Fámennið hefur gert það að verkum að „allir þekkja alla“, eins og sagt er. Það er því mikilvægt þegar við nýtum það sem landið hefur upp á að bjóða að sem flestir njóti með einum eða öðrum hætti.
Ísland er auðugt land, land sem býr við gnægð auðlinda og mannauð mikinn. Þann auð eigum við að nýta til að tryggja sem best að á Íslandi þurfi enginn að líða skort. Það er stórt verkefni sem ekki verður leyst í einu vetfangi, og það verður aðeins leyst þannig að við leggjumst öll á árar – saman.
Fólk gerir ekki kröfu um að allir séu jafnsettir, en fólk hefur ekki þol fyrir óréttlátri skiptingu þar sem sumir fá að njóta á meðan aðrir gera það ekki. Sérstaklega á þetta við þegar tilfinning fólks er sú að sumir fái fleiri og betri tækifæri en aðrir. En gleymum því ekki heldur að hver er sinnar gæfu smiður.
17. júní komum við saman og gleðjumst með fjölskyldu og vinum, hefjum fánann á loft og minnumst þess sem sameinar okkur sem þjóð, sem saman fetar veginn í gleði og sorg, leik og starfi. Margir hafa kosið að flytjast hingað til lands og leggja vinnu sína og örlög í faðm Íslands og þannig auðgað íslenskt þjóðlíf. Enda er landið okkar gjöfult fyrir þá sem vilja gera það að heimili sínu.
Landar okkar dreifast nú líka enn meira um jarðarkringluna en áður. Svo virðist sem sífellt fleiri líti á heiminn allan sem sína fósturjörð. Og möguleikar til starfa og góðrar framtíðar liggja að sjálfsögðu víðar en hér á Íslandi. Það er sú samkeppni sem blasir við og þeirri samkeppni eigum við að fagna – en einnig að taka alvarlega.
Munum um leið að það að vera hluti af þjóð er að eiga heimili. Hvar í veröldinni sem við Íslendingar kjósum að búa og starfa erum við tengd landinu okkar órofa böndum og vitum að hér eigum við ætíð samastað hvert sem lífið leiðir okkur.
Helgi Tómasson orðaði einmitt þessa hugsun á dögunum þegar hann sagðist vera kominn „heim“ með San Francisco-ballettinn. Hann hefur búið erlendis öll sín fullorðinsár en fyrir honum er Ísland ætíð „heima“. Það ætti að vera okkur keppikefli að sem flestum Íslendingum sem búa og starfa erlendis, um lengri eða skemmri tíma, sé eins innanbrjósts.
Kæru landsmenn.
Við stöndum hér á Austurvelli undir vökulu augliti þeirra Ingibjargar H. Bjarnason og Jóns Sigurðssonar. Líf og starf þeirra beggja minna okkur Íslendinga á að barátta fyrir málstað og umbótum í samfélaginu hefst með þrotlausri vinnu, einurð og þrautseigju. Þau minna okkur einnig á að þau réttindi sem við teljum í dag eðlileg og sjálfsögð eru alls ekki sjálfgefin. Fyrir þeim var unnið, þau voru sótt af harðfylgi og færð okkur af þeim kynslóðum sem á undan okkur gengu.
Lágmynd Einars Jónssonar hér á stallinum – Brautryðjandinn – er okkur til ævarandi áminningar um þetta.
Á þjóðhátíðardaginn minnumst við þeirra sem börðust og strituðu í sveita síns andlitis við að búa okkur betra samfélag. Skuld okkar við þau verður aldrei að fullu greidd. Næst því komumst við með því að rækja þá skyldu okkar að skila því ekki verr, og helst nokkru bættara, til komandi kynslóða, og að ala upp í börnum okkar og barnabörnum virðingu fyrir landinu okkar, samfélaginu og hvert öðru.
Þannig getum við tryggt að Ísland verði ætíð áfram heimili þeirra og samastaður í síbreytilegri veröld, hvert sem lífið kann að leiða þau að öðru leyti. Þannig getum við í sameiningu haldið á lofti vinnu og draumum feðra okkar og mæðra.
Allt er breytingum undirorpið og nýjar kynslóðir þurfa að takast á við ný verkefni með nýrri hugsun og nýjum aðferðum. Það er óvarlegt að ætla að kynslóð hinna eldri sé, þrátt fyrir reynslu, betur til þess fallin að ákveða hvað er unga fólkinu fyrir bestu.
Á sama hátt er ekki sjálfgefið að þeir sem yngri eru viti best hvað hinum eldri er fyrir bestu. Því samfélag ersamvinnuverkefni þar sem best niðurstaða fæst þegar hver og einn leggur til reynslu sína, hugmyndir og vinnu.
Samtalið milli kynslóða þarf að vera lifandi og virðing ríkja fyrir stöðu fólks á hverjum stað á lífsleiðinni. Öllum á að líða vel, hvar sem þeir kjósa að vera, og ég tel að við Íslendingar höfum ekki staðið okkur verr í þessum efnum en aðrar þjóðir. Við erum kannski ekki „best í heimi“ eins og stundum er sagt, en við erum sannarlega góð.
Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að samfélagið okkar og landið sé ætíð samkeppnishæft við það besta sem gerist í heiminum; að sjá til þess að heimili okkar, Ísland, sé ætíð verðugur, friðsæll og góður samastaður. Það er verkefni sem ég veit að við getum öll unnið að í sameiningu af heilum hug.
Kæru landsmenn.
Af ýmsu er að taka þegar tækifæri gefst til þess að ávarpa þjóðina 17. júní, svo margs sem vert væri að geta. Vart verður hjá því komist að minnast á glæsilegan árangur íþróttafólksins okkar sem hefur staðið sig frábærlega að undanförnu. Má þar nefna knattspyrnulandsliðin okkar í fremstu röð í Evrópu, sundmenn á verðlaunapalli, frjálsíþróttafólk að setja met og svo handboltalandsliðin okkar.
Það yljar óneitanlega um hjartarætur þegar fulltrúar okkar ná svo langt á alþjóðlegum vettvangi. Það er sannarlega eitt mesta stolt lítillar þjóðar að eiga svo margt íþróttafólk og listamenn og vísindamenn í fremstu röð í heiminum. Á þjóðhátíðardaginn eigum við leyfa okkur að rækta það stolt, gleðjast yfir afrekum landa okkar og því góða sem landið og samfélagið hafa gefið okkur. Betri hvatningu fyrir litla þjóð sem við ysta haf unir við hátign jökla og bláan sæ, hvatningu til að vinna að enn betri árangri á grunni þess sem þegar er unnið, er vart hægt að hugsa sér.
Vormenn Íslands, vorsins boðar,
vel sé yður, frjálsu menn!
Morgunn skóga’ og rósir roðar,
rækt og tryggð er græðir senn.
Notið, vinir, vorsins stundir,
verjið tíma’ og kröftum rétt,
búið sólskært sumar undir
sérhvern hug og gróðurblett!