Categories
Fréttir

Hátt vaxtastig er íþyngjandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf

Deila grein

18/03/2016

Hátt vaxtastig er íþyngjandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að nefna hér tvö mál, fyrst dagskrárliðinn sérstakar umræður. Oftar en ekki á sér stað mjög gagnleg umræða undir þeim lið og mér finnst formið á þeirri umræðu afar skilvirkt. Einn galli sem ég upplifi þó þegar ég tek þátt í þeirri umræðu er að tvær mínútur eru helst til knappur tími og ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig um það og mælst til að hæstv. forseti taki það til athugunar, nú síðast hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson að lokinni umræðu um afglæpavæðingu fíkniefna sem var í gær.
Þá að öðru, virðulegi forseti. Ég ætla að ræða vexti og vaxtastig sem er hér hátt í öllum alþjóðlegum samanburði. Nú í morgun birti peningastefnunefnd yfirlýsingu sína og heldur sig við óbreytta stýrivexti, 5,75%, þar sem verið er að bregðast við innlendum verðbólguþrýstingi en innflutt verðhjöðnun talin vega á móti. Það má ráða af þeirri ákvörðun að ef ekki væri fyrir þessa innfluttu verðhjöðnun væri full ástæða til að hækka stýrivexti. Tilgangur peningastefnunefndar og peningastefnu er að viðhalda stöðugleika og hann er mikilvægur þegar kemur að kaupmætti og kjörum. Á móti vegur að hátt vaxtastig er íþyngjandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf. Það er eitt meginviðfangsefni hagstjórnar til lengri tíma að við festumst ekki í þessu vaxtastigi, með þessa háu vexti, með hættu á tilheyrandi innstreymi fjármagns í formi vaxtamunarviðskipta. Það hefur áhrif á útflutningsatvinnugreinar og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna og getur að sama skapi haft áhrif á framþróun losunar hafta. Þetta er auðvitað viðvarandi en um leið aðkallandi viðfangsefni og þarf að leysa í stóru samhengi peningamála, ríkisfjármála, vinnumarkaðar og afnáms verðtryggingar á fasteignalánum til neytenda.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 16. mars 2016.