Categories
Fréttir

Landsbankinn á að leita réttar síns

Deila grein

16/03/2016

Landsbankinn á að leita réttar síns

þingmaður-hoskuldur„Virðulegi forseti. Mig langar, eins og aðrir hafa gert í þessum þingsal, að vekja athygli á einu atriði í Borgunarmálinu. Mig langar að taka það til umræðu hverjir hinir raunverulegu hagsmunir í málinu eru. Hinir raunverulegu hagsmunir eru þeir að almenningur tapaði ekki bara verulegum fjármunum heldur ótrúlega miklum fjármunum, svo að hleypur á milljörðum króna.
Í bréfi Bankasýslunnar til bankaráðs Landsbankans kemur fram að hafi Landsbankinn athugasemdir við upplýsingagjöf af hálfu annarra aðila í tengslum við sölumeðferð á eignarhlut í Borgun eigi bankinn að leita réttar síns, ef hann telur tilefni til. Ég held nefnilega að hér sé einmitt komið það tilefni.
Ég bendi á grein sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins eftir hæstaréttarlögmanninn Hauk Örn Birgisson. Þar bendir hann á ákvæði í samningalögum, nr. 7/1936, sem heimila í vissum tilvikum endurskoðun á viðskiptum aðila, jafnvel ógildingu; að það sé með öðrum orðum hægt að ógilda þennan samning og ná þessum fjármunum til baka. Hann vísar í dómafordæmi þar sem Hæstiréttur hefur bent á að sé verðmætið margfalt meira en endurgjaldið sé hægt að færa rök fyrir því að samningagerðin hafi verið byggð á brostnum eða röngum forsendum, og hægt sé að ógilda hana á grundvelli 36. gr. samningalaga.
Ég tel einboðið að Landsbankinn höfði mál, geri það hið allra fyrsta. Ég vil líka hvetja Bankasýsluna, vegna þess að hún fer með eignarhlut ríkisins, til að hafa forgöngu í málinu, að höfðað verði dómsmál og allra leiða leitað til að ná þessum fjármunum aftur. Þó að kostnaður við dómsmál geti hlaupið á einhverjum milljónum þá eru það smámunir miðað við þá gríðarlegu hagsmuni sem hér eru í húfi fyrir almenning í landinu.“
Höskuldur Þórhallsson í störfum þingsins 15. mars 2016.