Categories
Fréttir

Heilbrigðisráðherra heimsækir heilbrigðisstofnanir

Deila grein

22/08/2022

Heilbrigðisráðherra heimsækir heilbrigðisstofnanir

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra heimsótti í vikunni Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU), fundaði með framkvæmdastjórninni, kynnti sér starfsemi stofnunarinnar og skoðaði nýja hjúkrunarheimilið Móberg sem verður tekið í notkun innan skamms. Heimsóknin markar upphafið að hringferð ráðherra um landið sem mun á næstunni heimsækja heilbrigðisstofnanir í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.

Á fundi ráðherra með framkvæmdastjórn kynnti Díana Óskarsdóttir forstjóri HSU helstu stærðir í rekstri stofnunarinnar, þróun starfseminnar og starfsáætlun þessa árs, áherslur í mannauðsmálum og ýmsar nýjungar sem unnið er að meðal annars á sviði heilbrigðistækni og fjarheilbrigðisþjónustu. Markvisst hefur verið unnið að því að styrkja þjónustu sérgreinalækna við stofnunina undanfarið með áherslu á aukna þjónustu við íbúa í heimabyggð og verður áfram haldið á þeirri braut.

Víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) í núverandi mynd varð til við sameiningu Heilbrigðisstofnunar Suð-Austurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja árið 2015 og er þetta víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins. Íbúar á þjónustusvæði HSU eru rúmlega 32.000 en í umdæminu eru einnig fjölmennar sumarhúsabyggðir og fjölsóttir ferðamannastaðir sem setur mark sitt á starfsemi stofnunarinnar, einkum yfir sumartímann. Starfsmenn HSU eru um 650 í 420 stöðugildum.

HSU starfrækir níu heilsugæslustöðvar í umdæminu, sjúkrahús á Selfossi og í Vestmannaeyjum og á Selfossi er opin bráðamóttaka allan sólarhringinn árið um kring. Á Selfossi er ljósmæðrastýrð fæðingarþjónusta og voru fæðingar 70 á síðasta ári. Þar er einnig miðstöð meðgönguverndar og göngudeildarþjónustu við barnshafandi fjölskyldur. Á heilsugæslustöðvunum er veitt grunnþjónusta með áherslu á forvarnir og fræðslu. Þar er móttaka sjúklinga, bráða- og slysaþjónusta, skólaheilsugæsla, heimahjúkrun, meðgöngu- og ungbarnavernd og sálfræðiþjónusta. Á öllum heilsugæslustöðvunum er bráðavakt læknis vegna neyðartilfella og stofnunin annast jafnframt alla sjúkraflutninga á starfssvæði sínu. Geðheilsuteymi HSU tók til starfa árið 2019 og sinnir það einstaklingum 18 ára og eldri sem þurfa á sérhæfðri og þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu að halda.

Hjúkrunarheimilið Móberg

Við HSU á Selfossi eru rekin 42 hjúkrunarrými fyrir aldraða og stofnunin rekur einnig hjúkrunarheimilið Hraunbúðir í Vestmannaeyjum með 32 íbúa. Í lok árs 2019 var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili í Árborg á bökkum Ölfusár við hlið HSU á Selfossi. Heimilið sem er fyrir 60 íbúa er nánast tilbúið til notkunar og munu fyrstu íbúarnir flytja þangað inn á næstunni. Hjúkrunarheimilið hefur fengið nafnið Móberg og mun HSU annast rekstur þess.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 19. ágúst 2022.

Ljósmyndir: Stjórnarráðið