Categories
Greinar

Snöggt viðbragð í leikskólamálum

Deila grein

22/08/2022

Snöggt viðbragð í leikskólamálum

Í gær samþykktum við í borginni bráðaaðgerðir í leikskólamálum í Reykjavík sem allar miða að því að auka framboð á leikskólaplássum og flýta þannig inntöku barna í leikskóla.

Á sama tíma stendur Reykjavíkurborg fyrir mestu uppbyggingu í áratugi með Brúum bilið-átakinu og mun átakið skila 553 nýjum plássum á þessu ári. Tafir á opnun nýrra skóla hafa leitt til óþolandi vandræða fyrir fjölskyldur sem gerðu ráð fyrir að leikskólavist gæti hafist snemma í haust. Það er miður og við höfum á undanförnum dögum smíðað bráðaaðgerðaáætlun.

Aðgerðirnar eru þessar. Við flýtum opnun Ævintýraborgar á Nauthólsvegi þannig að börnin geti hafið aðlögun í fyrri hluta septembermánaðar. Við ætlum líka að nýta laust húsnæði í Korpuskóla og Bakka í Grafarvogi til að taka við nýjum börnum nú í haust. Þarna skapast 160–200 ný pláss og markmiðið er að opna eftir sex vikur. Við viljum líka skoða nýtingu á frístundaheimilum fyrir leikskólabörn. Við ætlum að fjölga dagforeldrum með því að hækka niðurgreiðslur og fjölga þannig plássum. Tvær nýjar Ævintýraborgir verða pantaðar í september en þær verða tilbúnar á næsta ári.

Við verðum líka að einfalda líf foreldra. Það verður að breyta verklagi við innritun í leikskóla þannig að foreldrar þurfi ekki að hringja um alla borg í leikskólastjóra til að finna pláss. Það felst meðal annars í því að samræma innritunarkerfi Reykjavíkur og sjálfstætt starfandi leikskóla. Frábært starf fer fram á leikskólum Reykjavíkur, þar eru þúsundir barna og hundruð starfsfólks sem verja deginum saman til náms og leiks á hverjum degi. Leikskólagjöldin eru með þeim lægstu og systkinaafslættir eru afar ríflegir.

Við í meirihlutanum í Reykjavík heyrum skýrt ákall foreldra um aðgerðir. Við höfum brugðist við því með snöggu viðbragði. En verkinu er ekki lokið og við höldum áfram að vinna í þágu barna og barnafjölskyldna.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík og formaður Borgarráðs.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 19. ágúst 2022.