Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, sagði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi að Íslendingar standa frammi fyrir mörgum áskorunum en ekki megi gleyma að við búum við ákjósanlegri lífsskilyrði en margir aðrir.
„Á Íslandi er orkan okkar græn og umhverfisvæn. Hér er friðsælt, lífskjör eru almennt góð og jöfnuður er óvíða meiri. Já, það er stundum hollt að við minnum okkur á hversu lánsöm við raunverulega erum.“
Willum Þór minnti á að með vaxandi lífaldri og auknum kröfum okkar um meiri lífsgæði verða viðfangsefnin æ fleiri og meira krefjandi á sviði heilbrigðismála. Þriðjungur af heildarfjárhæð fjárlaga fer til heilbrigðismála.
„Notandinn er í forgrunni þeirrar ákvörðunartöku. Þjóðin er að eldast. Tækniframförum fleygir fram og sjúkdómur sem var ólæknandi fyrir nokkrum árum er í dag er læknanlegur. En heilbrigðiskerfið snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu,“ sagði Willum Þór.
„Heilsan er okkar dýrmætasta eign“
Willum sagði mikilvægt að aukna áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Áhersla á lýðheilsu sést í aðgerðaáætlun í lýðheilsumálum og árlegu heilbrigðisþingi sem verður helgað lýðheilsu.
„Alþingi ályktaði nú í vor um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Markviss áætlun á grunni stefnunnar um aðgerðir í geðheilbrigðismálum er í mótun og mun koma fyrir þingið sem þingsályktunartillaga í byrjun næsta árs. Mönnun í heilbrigðisþjónustu er gríðarleg áskorun hér á landi, á heimsvísu, nú og til framtíðar.
Heilbrigðisstarfsfólk þarf í kjölfar heimsfaraldurs endurheimt og stuðning. Það er okkar stjórnvalda að tryggja að umgjörðin sé í lagi, nýr spítali, nýsköpun, tækni, lyf, menntun, vísindi, húsnæði — já, listinn er langur — innviðir, samningar um þjónustu, allt sem tryggir bættan aðbúnað og kjör fyrir mannauðinn, þjónustuveitendur og þiggjendur,“ sagði Willum.
Willum minnti á nýskipað endurhæfingarráð sem hefur það hlutverk að vera til ráðgjafar um faglega stefnumörkun og skipulag þjónustu á sviði endurhæfingar. Ráðuneyti og sveitarfélög vinna að umbótum í málefnum aldraðra og er sérstök verkefnastjórn að leiða það verkefni.
„Heilbrigðisþjónusta getur ekki verið háð hagsveiflum“
„Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi eru framlög til heilbrigðismála aukin og það er engin aðhaldskrafa sett á heilbrigðisstofnanir, sjúkrahús og öldrunarstofnanir. Í því felast skýr skilaboð: Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stendur vörð um heilbrigðiskerfið. Sameinumst um stöðugar umbætur heilbrigðiskerfisins. Öflugt samfélag byggir ekki síst á sterku heilbrigðiskerfi,“ sagði Willum að lokum.