Categories
Fréttir

Nýtum tækifærin vel í orkumálum, verum ábyrg, verum framsýn

Deila grein

15/09/2022

Nýtum tækifærin vel í orkumálum, verum ábyrg, verum framsýn

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, sagði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi að viðsnúningur í efnahagslífi Íslands megi að miklu leyti þakka nýfengna ferðafrelsi, til landsins streymi að nýju ferðamenn. Náttúra landsins dragi ferðamenn til landsins, fóstri landbúnað og sjávarútveg og sé uppspretta orkuauðlindarinnar.

Sigurður Ingi sagði að fortíðin sýndi að lykillinn að lífsgæðum á Íslandi sé að feta einstigi verndar og nýtingar.

„Samtíminn í nágrannalöndum okkar sýnir að við erum einstaklega lánsöm með okkar innlendu orku. Ef rétt er á spilum haldið mun framleiðsla á innlendri orku fyrir ökutæki, skip og flugvélar veita okkur einstakt orkusjálfstæði. Fyrir þessari ríkisstjórn liggur að nýta tækifærin vel þegar kemur að orkumálum, vera ábyrg, vera framsýn,“ sagði Sigurður Ingi.

Rammasamning um húsnæðisuppbyggingu í stað skammtímalausna

„Í sumar undirritaði ég ásamt formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga rammasamning um húsnæðisuppbyggingu. Í gær hleyptum við formlega af stokkunum næstu lotu sem felur í sér samtal og samningsgerð við einstaka sveitarfélög. Í þessu starfi sem fjölmargir fagaðilar hafa komið að má segja að hafi orðið til sannkallað þjóðarátak í uppbyggingu, húsnæðis enda ekki vanþörf á því að við finnum öll hvernig skortur á húsnæði hefur valdið miklum hækkunum, bæði á húsnæði en ekki síður á verðbólgu og vöxtum. Sú vinna sem þegar er hafin í húsnæðisuppbyggingu markar að mörgu leyti tímamót. Hér eru ekki á ferðinni neinar skammtímalausnir. Kerfið er ekki plástrað heldur er lagður grunnur að markvissri uppbyggingu til lengri tíma. Með þessum aðgerðum verður skapað jafnvægi sem kemur í veg fyrir miklar sveiflur sem leggjast ólíkt á nýjar kynslóðir sem koma inn á húsnæðismarkaðinn,“ sagði Sigurður Ingi.

„Að grípa ekki til aðgerða nú væri eins og að gefa í á leiðinni yfir blindhæð“

Sigurður Ingi minnti á að ríkisstjórnin hafi orðið að stíga á útgjaldabremsuna fyrir árið 2023 til þess að ná tökum á þenslunni, á verðbólgunni. Við munum strax sjá árangur af ábyrgri stjórn. En að fara verði varlega þegar þenslan er mest og verðbólga geisar. „Afleiðingar verðbólgunnar eru Íslendingum vel kunnar og ekki af góðu. Að grípa ekki til aðgerða nú væri eins og að gefa í á leiðinni yfir blindhæð.“

Ríkisstjórnin ætli að varða leiðina til framtíðar, til aukinnar hagsældar, til meiri jöfnuðar og fleiri tækifæra.

„Við sjáum kraftinn í matvælageiranum, í ferðaþjónustunni, í orkugeiranum, hinum skapandi greinum og við sjáum hugverkaiðnaðinn vaxa hratt. Þessi ríkisstjórn mun áfram standa fyrir uppbyggingu í samgöngum, í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, í menningunni og öðrum grundvallarþáttum þjóðarinnar, þessum sem skapa samfélag. Þessi ríkisstjórn mun áfram vinna að því að skapa samfélaginu okkar betri umgjörð, betri skilyrði. Þessi ríkisstjórn mun áfram vinna að því að bæta kjör almennings af því að til þess vorum við kosin,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.