Categories
Fréttir

Heildarsýn stjórnvalda skortir varðandi eyðijarðir

Deila grein

25/11/2015

Heildarsýn stjórnvalda skortir varðandi eyðijarðir

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Í fréttum RÚV í gær kom fram að helmingur ríkisjarða í Skaftárhreppi er í eyði eða landbúnaður ekki stundaður á þeim. Svo virðist sem ekki sé til nein heildarsýn hjá stjórnvöldum í því að byggja ríkisjarðir aftur þegar þær fara úr ábúð. Því verður að breyta. Íbúi í hreppnum segir í samtali við fréttastofu RÚV, með leyfi forseta:
„Það er niðurdrepandi fyrir fjölskyldur í fámennri byggð þegar hver jörðin af annarri leggst í eyði. Fólki fækkar í sveitinni og börnum í skólanum. Samfélagið líður fyrir þetta. Fólk vill koma og búa hér í sveitinni, en það virðist ekki nokkur leið að fá þessar jarðir. Jarðir eru ekki auglýstar fyrr en þeir sem fara hafa fellt allan bústofn og selt allar vélar. Þá hefur Vegagerð ríkisins oft tekið veginn heim að jörðinni af vegaskrá, Landgræðsla ríkisins tekið yfir hluta af henni og helst öll hlunnindi.“
Herra forseti. Vandamálið virðist meðal annars felast í því hversu mörg ráðuneyti og stofnanir koma að þessu. Ríkiseignir fara með útleigu ríkisjarða í umboði fjármálaráðuneytisins, landbúnaðarmál heyra undir landbúnaðarráðuneytið, Vegagerð ríkisins undir innanríkisráðuneytið og Landgræðsla ríkisins undir umhverfisráðuneytið.
Hæstv. forseti. Sú sem hér stendur lagði fram þingsályktunartillögu um nýtingu jarða í ríkiseigu á síðasta þingi og aftur á yfirstandandi þingi. Í henni er lagt til að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að leita allra leiða til að koma ónýttum eða ósetnum jörðum í ríkiseigu í notkun og að greiða fyrir ábúendaskiptum á ríkisjörðum.
Ég vona að sú tillaga komist sem fyrst á dagskrá og tek undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um að tími er til kominn að við greiðum fyrir mjög svo mikilvægum og góðum þingmannamálum sem ekki hafa komist að enn sem komið er og það er mikil synd.
Það er líka sorglegt að góðar bújarðir séu ekki í ábúð vegna þess að menn tala ekki saman og gefa sér ekki tíma til að móta framtíðarsýn í þeim málaflokki. Það verður að breytast.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir — störf þingsins, 24. nóvember 2015.