Categories
Fréttir

„Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum“

Deila grein

11/01/2024

„Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf.

Markmið tillögunnar er að eiga áhrifaríka aðferð svo að leggja megi mat á bein og óbein áhrif ákvarðana og lagasetningar af hálfu stjórnvalda í þágu lýðheilsu samfélagsins. Ákvarðanir löggjafarvaldsins eru þá teknar með aukinni þekkingu á mögulegum áhrifum löggjafar á lýðheilsu fólks. Tillagan er og í góðu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en í sáttmálanum er kveðið á um aukna áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál.

TILLÖGUGREININ HLJÓÐAR SVO:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að ljúka vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi. Sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags, sveitarfélaga og embættis landlæknis er leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar. Hópurinn skal skila stöðuskýrslu sem kynnt verði Alþingi eigi síðar en 1. maí 2024.“

„Á síðustu áratugum hafa lífslíkur aukist verulega hér á landi og aldurssamsetning þjóðarinnar hefur tekið breytingum í kjölfarið. Þannig gerir mannfjöldaspá Hagstofunnar ráð fyrir því að 65 ára og eldri verði 20% mannfjöldans árið 2037 og yfir 25% árið 2064. Þetta þýðir að sífellt færri verða á vinnufærum aldri á bak við hverja 65 ára og eldri, byrði langvinnra sjúkdóma aukast ásamt því að ýmsar áskoranir munu herja á samfélagið m.a. vegna loftslagsbreytinga. Ef ekki er brugðist við þessari stöðu með markvissum hætti er ljóst að kostnaður og þjónustuþörf mun aukast umtalsvert innan heilbrigðiskerfisins sem og öðrum þáttum stjórnsýslunnar,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Skipta má áhrifum á heilsu niður í fimm meginþætti og greinast þeir frá víðum áhrifum niður í sértæk áhrif. Fyrst má nefna áhrif löggjafar af hálfu stjórnvalda, áhrif samfélagsins, áhrif stofnana, áhrif ýmissa hópa í samfélaginu og síðast en ekki síst persónulega þætti sem telja má til sértækra áhrifa. Ef horft er til arðsemissjónarmiða og sannreyndra fyrirbyggjandi aðgerða, skilar löggjöf mestum heilsufarslegum ábata fyrir heildina. Því er talið mikilvægt að stjórnvöld meti áhrif löggjafar út frá lýðheilsusjónarmiðum á sama hátt og mat er lagt á löggjöf út frá til að mynda jafnréttissjónarmiðum, umhverfisáhrifum, kostnaði og fleiri þáttum.“

„Lengi hafa ríki verið hvött til að innleiða lýðheilsumat í löggjöf í sínu landi. Hér á landi hefur embætti landlæknis kallað eftir slíkri innleiðingu. Hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ásamt Sameinuðu þjóðunum gert slíkt hið sama. Ef marka má umræðu og aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum má ætla að breið samstaða sé um að Ísland taki sér Finnland til fyrirmyndar og innleiði lýðheilsumat. Hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson hefur lagt mikla áherslu á málaflokkinn og helgaði heilbrigðisþing í fyrra lýðheilsu, heilsueflingu, forvörnum og heilsulæsi. Í drögum að aðgerðaáætlun um lýðheilsustefnu sem kynnt var hér á Alþingi var innleiðing á lýðheilsumati ein af aðaláherslum.

Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum,“ sagði Jóhann Friðrik.