Categories
Fréttir Greinar

Heimastjórnir og íbúasamtal – lykilatriði í sameiningu Múlaþings

Deila grein

22/10/2025

Heimastjórnir og íbúasamtal – lykilatriði í sameiningu Múlaþings

Í stóru og fjölbreyttu sveitarfélagi eins og Múlaþingi er mikilvægt að tryggja að allir íbúar upplifi sig sem virka þátttakendur. Með sameiningu byggðarlaga fylgir sú áskorun að viðhalda nálægð og trausti milli íbúa og stjórnsýslu, og að ákvarðanir endurspegli raunverulegar þarfir fólks á öllum svæðum. Þar koma heimastjórnir sterkt inn sem lykilverkfæri í lifandi lýðræði og fjölkjarna sveitarfélagi.

Fjölkjarna sveitarfélög og lærdómur fyrir Múlaþing

Í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri sem ber heitið Fjölkjarna sveitarfélög og unnin var af þeim Hjalta Jóhannessyni og Arnari Þór Jóhannessyni, er fjallað um reynslu sveitarfélaga sem hafa tekið upp heimastjórnir og önnur form íbúalýðræðis eftir sameiningar. Þar kemur fram að Múlaþing sé eitt af þeim sveitarfélögum sem hefur mótað skýrt kerfi heimastjórna til að tryggja tengsl milli íbúa og sveitarstjórnar.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar gegna heimastjórnir lykilhlutverki í að viðhalda staðbundinni þátttöku og skilningi á þörfum mismunandi byggðarkjarna. Þar sem heimastjórnir starfa með skýru hlutverki, reglubundnum fundum og góðu upplýsingaflæði, eykst traust, gagnsæi og skilvirkni í ákvarðanatöku. 

Hlutverk heimastjórna

Heimastjórnir eru brú milli sveitarstjórnar og íbúa. Þær tryggja að raddir fólks á öllum svæðum heyrist í stefnumótun og ákvörðunum. Þær byggja á þeirri einföldu, en áhrifaríku hugmynd, að bestu ákvarðanirnar fæðast þegar þær eru teknar í samvinnu við þá sem þekkja málin best, íbúana sjálfa.

Í fjölkjarna sveitarfélagi eins og Múlaþingi, þar sem aðstæður eru ólíkar milli byggðarlaga, er þessi nálægð sérstaklega mikilvæg. Heimastjórnir hjálpa til við að forgangsraða rétt, byggja upp traust og varðveita sérkenni hvers svæðis. Þær geta einnig verið vettvangur fyrir frumkvæði innan sveitarfélagsins, þar sem hugmyndir spretta beint úr samfélaginu sjálfu.

Gildi íbúafunda og samráðs

Skýrslan bendir jafnframt á að íbúalýðræði blómstrar ekki af sjálfu sér, það þarf að skapa vettvang fyrir samtal. Þar koma íbúafundir sterkast inn. Þeir eru ekki einungis upplýsingafundir heldur tækifæri til að ræða, spyrja og móta framtíðarsýn saman. Reglulegir íbúafundir og opið samráð tryggja að ákvarðanir sveitarfélagsins byggist á gagnsæi og þátttöku. Samkvæmt RHA er þetta eitt af lykilatriðunum sem aðgreinir þau fjölkjarna sveitarfélög sem ná árangri frá þeim sem glíma við sundrung og vantraust.

Heimastjórnir og íbúasamtal eru ekki formsatriði heldur hjarta virks sveitarfélags. Þær tryggja að lýðræðið sé lifandi, að ákvarðanir séu teknar í samvinnu og að samfélagið styrkist út frá sínum eigin grunni.

Heimastjórnir hafa boðað til funda tvisvar á ári og hafa þeir fundir reynst okkur afskaplega vel, bæði er hægt að halda kynningar á helstu málum sveitarfélagsins en einnig taka við ábendingum íbúa er varðar hin ýmsu mál. Heimastjórnirnar fjórar eru nú flestar búnar að boða haustfundi með íbúum sínum og ég vil hvetja íbúa okkar til að mæta á sínu svæði, við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti B-lista og forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 21. október 2025.