Categories
Fréttir

Heimavist á höfuðborgarsvæðinu

Deila grein

13/12/2018

Heimavist á höfuðborgarsvæðinu

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, varaþingmaður, flutti jómfrúrræðu sína á Alþingi í gær. Fór hún yfir vanda framhaldsskólanema af landsbyggðinni sem flytja á höfuðborgarsvæðið til að stunda nám og lenda í húsnæðisvanda.
„Hæstv. forseti. Hér er ég komin í dag til að vekja athygli á vandamáli sem hefur verið til staðar í mörg ár. Það er vandamál framhaldsskólanema af landsbyggðinni sem flytja á höfuðborgarsvæðið til að stunda nám. Staðreyndin er sú að 17 af framhaldsskólum landsins eru á höfuðborgarsvæðinu. Það er mjög margt ungt fólk sem kemur af landsbyggðinni til að stunda nám en lendir á vegg. Það er nefnilega ekki neitt húsnæði í boði fyrir það.
Þeir nemendagarðar sem eru á höfuðborgarsvæðinu eru ætlaðir fyrir háskólanema. Því reyna mjög margir nemendur að flytja inn á vinafólk eða ættingja og sumir reyna fyrir sér á leigumarkaðinum, en sá frumskógur hentar ekki 15-18 ára ungmennum. Því eru sumir sem bregða á það ráð að hætta í námi eða skipta um námsbraut og það bitnar gjarnan á iðnnámi. Þetta á ekki að vera svona. Ungmenni eiga rétt á að stunda það nám sem þau vilja. Húsnæðismál eiga ekki að vera vandamál fyrir þennan aldurshóp og ég er nokkuð viss um að foreldrar vilji ekki senda börnin sín í slíkar óvissuaðstæður.
Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að komið verði á fót heimavist á höfuðborgarsvæðinu fyrir framhaldsskólanema af landsbyggðinni. Það myndi opna möguleika margra nemenda og einnig vera leið til að auka jafnrétti nemenda á Íslandi, því að allir eiga rétt á sama námi óháð því hvaðan þeir koma.
Sú sem hér stendur leggur því í dag fram tillögu til þingsályktunar um heimavist á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)“
Jómfrúrræða Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur, varaþingmanns, á Alþingi, 12. desember 2018.