Categories
Fréttir

Heimilin hafa ekki gleymst

Deila grein

26/05/2016

Heimilin hafa ekki gleymst

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Í morgun fór fram opinn fundur um húsnæðismál. Þar voru húsnæðisfrumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra til umræðu. Á fundinum fór framsögumaður nokkurra af þeim málum, sá hv. þingmaður sem hér stendur, yfir þær breytingar sem hv. velferðarnefnd hefur gert á málunum og almennt yfir stöðu mála í nefndinni. Fundurinn var afar vel sóttur og hægt að segja að sú góða mæting hafi svo sannarlega verið hvatning til að halda áfram að vinna vel að þessum málum, þ.e. að klára fyrir þinghlé 3. umr. um almennar félagsíbúðir, frumvarp um auknar húsnæðisbætur og breytingu á húsaleigulögum. En öll þessi vinna er í fullum gangi innan nefndarinnar.
Unnið er að því að auka húsnæðisöryggi allra landsmanna, þ.e. að einstaklingar og fjölskyldur hafi raunhæft val um búsetuform, hvort þeir kjósi að búa á leigumarkaði, í eigin húsnæði eða í húsnæðissamvinnufélagi. Þau verk sem önnur sýna að heimilin hafa svo sannarlega ekki gleymst í verkefnum ríkisstjórnarinnar.
Á næstu dögum mun félags- og húsnæðismálaráðherra kynna fimmta frumvarpið um húsnæðismál og snýst það meðal annars um breytingar á fjármálamarkaði. Þessu tengt langar mig að minnast á að undanfarna daga hafa fjölmiðlar spurt okkur hv. þingmenn hvort við styðjum það að kosningar verði í haust. Ég hef svarað því þannig að persónulega finnist mér ekki tímabært að ákveða kjördag. Mikilvægt sé að horfa til þeirra verkefna sem ríkisstjórnin var kosin til að vinna að. Má þar nefna húsnæðismálin sem ég fjallaði um að framan en jafnframt þarf að klára aðgerðir er varða verðtrygginguna og endurbætur á almannatryggingakerfinu, auk þess sem þarf að fara í endurbætur á löggjöf um fæðingarorlof. Þegar þeim verkefnum er lokið er tímabært að ganga til kosninga, hvort sem það er í haust eða síðar.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 25. maí 2016.