Categories
Fréttir

Hindranir við rafbílavæðingu

Deila grein

07/09/2016

Hindranir við rafbílavæðingu

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Yfirvöld hafa stefnt að því að hverfa frá brennslu jarðefnaeldsneytis í samgöngum á Íslandi og lögð hefur verið áhersla á eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu. Sú uppbygging er komin nokkuð á veg og er töluverð eftirspurn eftir að hraða henni því áhugi manna og meðvitund um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hefur vissulega vaxið. En til að þetta sé raunhæfur möguleiki fyrir alla landsmenn þarf bæði að veita rafmagni til hleðslustöðvanna sem reisa á víða um land og leggja línur í vinnslustöðvar útgerðanna sem vilja geta veitt rafmagni úr landi um borð í skip sem liggja við bryggju. Fjölgun hefur orðið á rafknúnum bílum í landinu en það liggur fyrir að einhverjar breytingar þarf að gera á regluverki og umgjörð, t.d. þarf að ákveða hvort tilskipun EES um innviði fyrir vistvænar samgöngur á að gilda hér og hvaða staðla á að innleiða varðandi hraðhleðslustöðvar. Þá þarf að taka af öll tvímæli um að rekstraraðilar hraðhleðslustöðva sé heimilt að afhenda raforku gegn gjaldi án þess að teljast orkusölufyrirtæki í skilningi laganna. Einnig þurfa dreifiveitur að huga að aðferðum við álagsstýringu þegar rafbílavæðing hefur átt sér stað. Þessu fylgir því líka að huga þarf að byggingarreglugerðum þannig að gert verði ráð fyrir hleðslustöðvum á bílaplönum fjölbýlishúsa og á bílastæðum svo dæmi séu tekin.
Það eru vissulega ýmis úrlausnarefni sem tengjast orkuskiptum í samgöngum og þau eru síst minni þegar kemur að skipaflotanum. Landtengingar hafa lengi verið í boði. Um tíma var rafmagn til skipa sérstakur gjaldskrárliður, en síðan árið 2005 má ekki mismuna eftir því í hvað orkan er notuð. Eitthvað þarf að skoða þetta svo liðka megi fyrir framgangi þessa máls. En kannski er það til lítils ef horft er til þess að ekki hafa verið reistar loftlínur á landinu síðan 2006 og fréttir berast af því að hótel sem verið er að reisa séu keyrð á dísil. Við þurfum að geta flutt rafmagnið sem við framleiðum til notenda.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 6. september 2016.