Categories
Forsíðuborði Fréttir

Hlakkar til baráttunnar

Deila grein

29/09/2017

Hlakkar til baráttunnar

Stjórnarslitin komu mér ekki á óvart. Ósamstaðan og vantraustið innan ríkisstjórnar blasti við. Hins vegar kom mér verulega á óvart hversu snemma stjórnarslitin urðu. Þremur dögum eftir þingsetningu er auðvitað hlægilega sorglegt.
Ég mun gefa kost á mér á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og mun nú sem endranær leggja áherslu á að þjóna mínum umbjóðendum eins vel og ég get. Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt áherslu á að halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs og minnka þar með vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Við teljum hins vegar að svigrúm til uppbyggingar innviða sé til staðar. Á uppgangstímum er  hægt að auka fjárframlög til aðkallandi verkefna eins og heilbrigðisþjónustu, nefni ég þá sérstaklega heilsugæsluna, sjúkraflutninga sem og til vegaframkvæmda og menntamála. Vissulega þarf að fara varlega svo hagkerfið ofhitni ekki. Þess vegna þarf að taka til greina ólíka stöðu landshluta þegar verkefni eru valin. Þenslan er auðvitað mest á höfuðborgarsvæðinu, en töluvert minni annars staðar og vitna ég þá í skýrslu Byggðastofnunar sem kom út nú í sumar. En í stuttu máli sagt þá mun Framsóknarflokkurinn leggja áherslu á stöðugleika, velferð og samvinnu.
Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hvernig valið verður á lista hjá Framsóknarflokknum en hvert kjördæmi ákveður það fyrir sig. Ég geri ráð fyrir að kosningabaráttan verði hefðbundin þó að skammur tími sé til stefnu. Ég hlakka til þeirrar baráttu og er í góðri æfingu þar sem þetta er þriðja kosningabaráttan mín á á fjórum árum. Sem er auðvitað stórfurðulegt ef út í það er farið. Maður veltir fyrir sér, miðað við hraðann í samfélaginu og stemminguna almennt, hvort þetta verði það sem við megum eiga von á næstu árin, kosningar á 1-3 ára fresti? Ég óttast að stöðugleikinn fari þá fyrir lítið og mikilvæg verkefni falli á milli skips og bryggju.
Í ljósi stöðunnar er ómögulegt að spá fyrir um hvað kemur upp úr kjörkössunum. Á Norðurlöndum eru orðin hefð fyrir fjölflokka og minnihlutastjórnum jafnvel. Margt bendir til þess að við séum að feta sömu leið. Við Framsóknarfólk erum samvinnufólk og eigum því að geta unnið með öllum flokkum, hvort sem þeir flokkast til hægri eða vinstri.
Framsóknarflokkurinn hefur farið í mikla sjálfsskoðun sl. áratug og síðasta árið var flokknum mjög erfitt fyrir margra hluta sakir. Ég tel að flokkurinn hafi nú alla burði til að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi á nýjan leik og vona auðvitað að það verði niðurstaðan.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður
Greinin birtist í Víkurfréttum 28. september 2017.