Categories
Fréttir

Hlutdeildarlánunum er ætlað að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði

Deila grein

22/06/2020

Hlutdeildarlánunum er ætlað að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, fór yfir tilgang og markmið með hlutdeildarlánunum á störfum þingsins á Alþingi á dögunum. Hlutdeildarlán eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar og lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði á liðnu ári. Hlutdeildarlánunum er ætlað að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði, sem einnig ætti að nýtast þeim sem hafa misst sitt húsnæði og hafa ekki verið í eigin húsnæði í a.m.k. fimm ár.

Einnig er ætlað að auka hvata fyrir byggingaraðila til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði sem hentar tekjulægri hópum samfélagsins.

Hugmyndin að hlutdeildarlánum er fengin frá Skotlandi og þar hafa þau gefið góða raun og hafa leitt til aukins framboðs á hagkvæmu húsnæði. Þar hefur einnig verið raunin að uppbygging hefur aukist í dreifbýlinu.

„Eðli málsins samkvæmt eru nýbyggingar úti á landi, þar sem ríkir markaðsbrestur á fasteignamarkaði, dýrari en það sem eldra er. Með því að beina hlutdeildarlánum að hagkvæmum nýbyggingum skapast hvati til þess að byggja úti á landi.

Gagnrýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjármálastofnanir hafa verið tregar til að lána til íbúðarkaupa á köldum svæðum. Önnur úrræði sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur ráðist í á landsbyggðinni svarar þeirri gagnrýni,“ sagði Halla Signý.

„Sérstakur lánaflokkur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bæði til íbúðarkaupa og framkvæmda, hefur nú þegar nýst í Blönduósbæ, Dalabyggð, Akureyrarbæ, Norðurþingi, Súðavíkurhreppi, Borgarbyggð, Árborg og Ísafjarðarbæ. Álíka mörg verkefni eru í pípunum.“

Sagðist Halla Signý að lokum taka „undir þau sjónarmið að ekki gildi sömu viðmið um fasteignamarkað á stórhöfuðborgarsvæðinu og á köldum svæðum úti á landi. Sveigjanleiki í kerfinu verður að vera til staðar til að koma á móts við sérstakar aðstæður þar.“

Ræða Höllu Signýjar í heild sinni:

<iframe scrolling=’no’ frameborder=’0′ type=’text/html’ style=’border:0;overflow:hidden; width:70%;height:350px’ src=’//vod.althingi.is/player/?type=vod&width=512&height=288&icons=yes&file=20200616T122411&start=1383&duration=131&autoplay=false’ allowTransparency allowfullscreen seamless allow=’autoplay; fullscreen’></iframe>

„Virðulegi forseti. Í velferðarnefnd liggur frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán. Þetta frumvarp er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar og lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði á liðnu ári og því er ætlað að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði, sem einnig ætti að nýtast þeim sem hafa misst sitt húsnæði og hafa ekki verið í eigin húsnæði í a.m.k. fimm ár. Jafnframt er frumvarpinu ætlað að auka hvata fyrir byggingaraðila til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði sem hentar tekjulægri hópum samfélagsins.

Hugmyndin að hlutdeildarlánum er fengin frá Skotlandi og þar hafa þau gefið góða raun og hafa leitt til aukins framboðs á hagkvæmu húsnæði. Þar hefur einnig verið raunin að uppbygging hefur aukist í dreifbýlinu. Eðli málsins samkvæmt eru nýbyggingar úti á landi, þar sem ríkir markaðsbrestur á fasteignamarkaði, dýrari en það sem eldra er. Með því að beina hlutdeildarlánum að hagkvæmum nýbyggingum skapast hvati til þess að byggja úti á landi.

Gagnrýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjármálastofnanir hafa verið tregar til að lána til íbúðarkaupa á köldum svæðum. Önnur úrræði sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur ráðist í á landsbyggðinni svarar þeirri gagnrýni. Sérstakur lánaflokkur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bæði til íbúðarkaupa og framkvæmda, hefur nú þegar nýst í Blönduósbæ, Dalabyggð, Akureyrarbæ, Norðurþingi, Súðavíkurhreppi, Borgarbyggð, Árborg og Ísafjarðarbæ. Álíka mörg verkefni eru í pípunum.

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur tekur undir þau sjónarmið að ekki gildi sömu viðmið um fasteignamarkað á stórhöfuðborgarsvæðinu og á köldum svæðum úti á landi. Sveigjanleiki í kerfinu verður að vera til staðar til að koma á móts við sérstakar aðstæður þar.“