Categories
Fréttir

Höfum við næga orku?

Deila grein

15/11/2022

Höfum við næga orku?

„Hæstv. forseti. Við höfum næga orku. Það er setning sem við fáum mjög oft að heyra. Og það er alveg rétt, við höfum næga orku ef við ætlum að halda áfram að keyra alla flutninga á mengandi jarðefnaeldsneyti. Við höfum næga orku ef við ætlum ekki að fara í orkuskipti. Við höfum næga orku ef við ætlum ekki að veita fyrirtækjum tækifæri til að styrkja eigin innviði og tryggja samkeppnishæfni sína og minnka kolefnisspor sitt á alþjóðavísu.

Þannig að ef við ætlum að fara í orkuskiptin, taka þátt í alþjóðlegum verkefnum og minnka kolefnisspor heimsins þá sé ég ekki annað en við séum ekki með næga orku. Við erum ekki sjálfbær í orkuframleiðslu og þurfum að geta farið í rannsóknir, skoðað og rætt þá orkukosti sem við höfum á Íslandi. Orkukostirnir sem við höfum eru misjafnir að gæðum og sumir munu aldrei verða að veruleika. En það er mikilvægt að við ræðum þær hugmyndir sem koma fram.

Rannsóknir á orkukostum skipta miklu máli til þess að við vitum um hvað við erum að tala og um hverja við erum raunverulega að taka ákvörðun. Það má nefna dæmi um rannsóknir á náttúru, á hljóðvist og nærliggjandi samfélagi. Þetta eru hlutir sem þarf að rannsaka áður en tekin er ákvörðun um að virkja og því er mjög mikilvægt að gera rannsóknir.

Loftslagsmál eru ekki eitthvað sem við leysum á eyju úti í Atlantshafi en við þurfum að geta lagt okkar af mörkum fyrir heimsbyggðina því að þetta er alþjóðlegt vandamál. Hvert skref skiptir máli,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi..