Categories
Fréttir

Höldum við virkilega að við séum bættari með landbúnaðinn á Íslandi á hnjánum?

Deila grein

12/10/2023

Höldum við virkilega að við séum bættari með landbúnaðinn á Íslandi á hnjánum?

„Mér er sagt að lítið sé að frétta af endurskoðun búvörusamninga en þeim er ætlað að tryggja fæðuöryggi og efla innlenda landbúnaðarframleiðslu, styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis, náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, í störfum þingsins. Sagði hann að huga verði að tollvernd og sambærilegum stuðningi við landbúnaðinn líkt og í löndunum í kringum okkur.

„Miklar verðhækkanir á aðföngum eru staðreynd og háir vextir og verðbólga hafa gríðarleg áhrif á bændur en reksturinn er oft mjög skuldsettur. Það hljóta allir að skilja að sterkur íslenskur landbúnaður er allra hagur, líka neytenda,“ sagði Jóhann Friðrik og hélt áfram, „við höfum verið minnt á mikilvægi fæðuöryggis í tengslum við þjóðaröryggi, ekki bara í kjölfar heimsfaraldurs heldur einnig vegna stríðsátaka“.

Sagði hann Íslendinga verða að efla fæðuöryggi og setja sérstakan stuðning við það í endurskoðun búvörusamninga. Bændastéttin væri ein sú lægst launaða, meðalaldur væri hár og nýliðun stéttarinnar mjög erfiða. Fagna bæri auknum stuðningi við kornrækt en það eitt breyti ekki stöðu annarra í greininni.

„Útgjöld stjórnvalda til landbúnaðar standa nokkurn veginn í stað, sýnist mér, á næstu árum að öllu óbreyttu. Höldum við virkilega að við séum bættari með landbúnaðinn á Íslandi á hnjánum?“

Minnti Jóhann Friðrik á að búvörusamningar séu gerðir til næstu 10 ára og því mikilvægt að framkvæmd slíks samnings tekist vel til. Bændur ráði ekki við vaxtaumhverfið í dag, vegna fjárfestinga sem farið hefur verið í og hvatt hefur verið til á undanförnum árum.

„Þetta er vonlaust án þess að við stígum inn í. Stjórnvöld verða að stíga fastar inn í og standa með bændunum í landinu,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég er þungt hugsi eftir kjördæmavikuna. Ég hef heyrt í bændum víðs vegar um landið. Einn mikilvægasti grunnatvinnuvegur landsins er landbúnaður. Mér er sagt að lítið sé að frétta af endurskoðun búvörusamninga en þeim er ætlað að tryggja fæðuöryggi og efla innlenda landbúnaðarframleiðslu, styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis, náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Það er alveg klárt að huga verður að tollvernd og sambærilegum stuðningi við landbúnaðinn eins og á sér stað í löndunum í kringum okkur. Miklar verðhækkanir á aðföngum eru staðreynd og háir vextir og verðbólga hafa gríðarleg áhrif á bændur en reksturinn er oft mjög skuldsettur. Það hljóta allir að skilja að sterkur íslenskur landbúnaður er allra hagur, líka neytenda. Við höfum verið minnt á mikilvægi fæðuöryggis í tengslum við þjóðaröryggi, ekki bara í kjölfar heimsfaraldurs heldur einnig vegna stríðsátaka. Við verðum að efla fæðuöryggi á Íslandi og setja sérstakan stuðning við það í endurskoðun búvörusamninga.

Forseti. Bændur eru ein lægst launaða stétt landsins. Meðalaldur bænda er hár og nýliðun er mjög erfið. Það er nánast ómögulegt í sumum tilfellum fyrir bændur að koma búrekstri sínum til nýrrar kynslóðar. Auðvitað fagna ég auknum stuðningi við kornrækt en það breytir ekki stöðu annarra í greininni. Útgjöld stjórnvalda til landbúnaðar standa nokkurn veginn í stað, sýnist mér, á næstu árum að öllu óbreyttu. Höldum við virkilega að við séum bættari með landbúnaðinn á Íslandi á hnjánum? Búvörusamningar eru til 10 ára og því mikilvægt að vel til takist. Vaxtaumhverfið er að drepa greinina. Bændur standa ekki undir þeirri fjárfestingu sem farið hefur verið í og hvatt hefur verið til á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Þetta er vonlaust án þess að við stígum inn í. Stjórnvöld verða að stíga fastar inn í og standa með bændunum í landinu.“