Categories
Fréttir

Hraða verður vinnu að koma dreifikerfinu í jörð!

Deila grein

11/10/2022

Hraða verður vinnu að koma dreifikerfinu í jörð!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins að það hafi sýnst sig svo sannarlega að framkvæmdir Landsnets og Rarik síðustu ára hafi skilað árangri og aukið verulega raforkuöryggi í Norðausturkjördæmi. Þar sem dreifikerfið er ekki enn komið í jörð eins og á Jökuldal, í Bárðardal, á suðurfjörðum Austfjarða og víðar, voru íbúar á einstökum bæjum og sveitum rafmagnslausir klukkustundum saman. Lengstu kaflar dreifikerfisins sem enn eru tengdir með loftlínu eru á Austurlandi.

„Verkefni eins og Hólasandslína 3, Kröflulína 3, yfirbyggð tengivirki og dreifikerfi í jörð skipta sköpum þegar svona veður ganga yfir. Það liggur jafnframt fyrir að með frekari reynslu og þjálfun við að nýta sjálfvirkni nýrra mannvirkja er hægt að gera enn betur,“ sagði Líneik Anna.

„Í ljósi nýliðinna atburða og kröfu um þriggja fasa rafmagn í svo til allri nýsköpun og atvinnuuppbyggingu til sveita tel ég að við getum ekki beðið svo lengi.

Stjórnvöld verða að stuðla að hraðari vinnu við að koma dreifikerfinu í jörð og jafnframt við uppbyggingu Byggðalínunnar,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Ræða Líneikar Önnu á Alþingi:

„Virðulegi forseti

Haustveðrin koma svo sannanlega með látum í ár, og nú þegar hafa gengið yfir tvö veður sem bæði höfðu áhrif á dreifi- og flutningskerfi raforku auk annars.

Í kjördæmaviku hittum við þingmenn Norðausturkjördæmis fulltrúa Landsnets og Rarik og fórum yfir stöðu raforkukerfisins.

Þó það hafi orðið raforkutruflanir í þessum veðrum þá sýndi það sig svo sannarlega að framkvæmdir síðustu ára skila árangri og auka raforkuöryggi verulega. Verkefni eins og Hólasandslína 3, Kröflulína 3, yfirbyggð tengivirki og dreifikerfi í jörð skipta sköpum þegar svona veður ganga yfir. Það liggur jafnframt fyrir að með frekari reynslu og þjálfun við að nýta sjálfvirkni nýrra mannvirkja er hægt að gera enn betur.

Starfsmenn þessara fyrirtækja unnu hörðum höndum meðan á veðrunum stóð og í kjölfarið, stýrðu kerfum í takt við áhrif veðursins, gerðu við staura, þrifu seltu, börðu niður ísingu, komu upp varaafli og þurftu meira segja að vefja bárujárnsplötu utan af spenni á rafmagnsstaur.

Samt sem áður bjuggu íbúar á einstökum bæjum og sveitum við rafmagnsleysi klukkustundum saman. Þetta gerðist þar sem dreifikerfið er ekki komið í jörð eins og á Jökuldal, í Bárðardal, á suðurfjörðum Austfjarða og víðar. Lengstu kaflar dreifikerfisins sem enn eru tengdir með loftlínu eru á Austurlandi.

Eftir aðventustorminn 2019 var áætlunum um að koma dreifikerfi RARK í jörð flýtt og nú er áætlað að ljúka því verkefni 2030.

Í ljósi nýliðinna atburða og kröfu um þriggja fasa rafmagn í svo til allri nýsköpun og atvinnuuppbyggingu til sveita tel ég að við getum ekki beðið svo lengi.

Stjórnvöld verða að stuðla að hraðari vinnu við að koma dreifikerfinu í jörð og jafnframt við uppbyggingu Byggðalínunnar.“