Categories
Fréttir

Hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland?

Deila grein

03/05/2019

Hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland?

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, fór sérstaklega yfir norrænt samstarf í umræðu um skýrslu um utanríkismál á Alþingi í vikunni, en Silja Dögg gegnir embætti formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir hönd Alþingis.
„Norrænt samstarf er og hefur lengi verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslendinga. Norðurlandaráð er þingmannavettvangur í opinberu norrænu samstarfi og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs sem stofnað var árið 1952. Markmið Norðurlandaráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem beint er til norrænu ráðherranefndarinnar og ríkisstjórna Norðurlandanna.
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda mjög reglulega og sendiskrifstofur Íslands eru í góðum samskiptum við norræna kollega heima og að heiman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem og annarra alþjóðastofnana. Þess má geta að Norðurlöndin starfrækja sendiráð sín á sameiginlegu sendisvæði í Berlín. Það hefur gefist afar vel.
En hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland? Samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs skiptir Ísland afar miklu máli. Ísland er auðvitað smáríki og því veitir norrænt samstarf okkur ákveðna fótfestu á alþjóðavettvangi. Við erum samstiga öðrum Norðurlöndum í helstu áskorunum og álitamálum í hinu alþjóðlega umhverfi. Þannig tala Norðurlöndin oft einum rómi, t.d. þegar kemur að öryggismálum, umhverfis- og loftslagsmálum og jafnréttismálum. Norðurlandaþjóðirnar deila einnig sameiginlegri sýn á ákveðin grundvallargildi eins og mikilvægi mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins og um friðsamlega lausn deilumála. Á þessum sviðum eru Norðurlandaþjóðir í fararbroddi á heimsvísu og leggja áherslu á að deila þekkingu sinni til að efla samfélög í öðrum heimshlutum.“
Og áfram hélt Silja Dögg, „pólitísk fótfesta, öflug utanríkisviðskipti og samstarf um menningu, menntun, vísindi og þróun eru kostir norræns samstarfs í hnotskurn og styrkurinn felst í því hversu ótrúlega margir taka þátt í samvinnunni á hverjum degi. Við erum án efa sterkari saman. Íslendingar hafa haft mörg stór hlutverk í norrænu samstarfi á þessu ári. Þar höfum við gegnt formennsku í norrænu ráðherranefndinni, formennsku í samstarfi norræna utanríkisráðherra, sem kallast N5, og samstarfi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, NB8, ásamt því að taka sæti í stjórn Alþjóðabankans í Washington DC í fyrir hönd NB8-hópsins.“