Categories
Fréttir

Hvar ganga menn í takt?

Deila grein

08/03/2017

Hvar ganga menn í takt?

,,Hæstv. forseti. Nú er ástandið þannig að af nógu er að taka. Sífellt áleitnari verður spurningin: Í hvaða málum eru stjórnarflokkarnir sammála? Hvar ganga menn í takt? Misræmi í málflutningi hæstv. utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar opinberaðist hér í gær. Annað telur aðild EFTA ekki duga lengur til að tryggja hagsmuni Íslands meðan hitt telur það nægja.
Hæstv. forseti. Hér eru menn úr öllum flokkum bálreiðir yfir meðferð hæstv. samgöngumálaráðherra á samgönguáætlun. Svo virðist sem hæstv. ráðherra hafi hugsað sér að sniðganga þingið með því að forgangsraða verkefnum bara svona sjálfur. Hæstv. ráðherra er dugmikill maður en þetta kann að vera fullmikill dugnaður.
Hæstv. forseti. Ég reikna með að mál skýrist þegar hæstv. ráðherra mætir til funda hjá nefndum þingsins.
Um útspil hæstv. landbúnaðarráðherra vegna búvörusamninga ræði ég síðar. Þar virðist mér takturinn eitthvað riðlast í liði hæstv. forsætisráðherra.
Í liðinni viku lagði þingflokkur Framsóknar fram ályktun um enduropnun neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli vitandi það að enn er mögulegt að tryggja aukið öryggi landsmanna með opnun hennar. Það er staðreynd að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafa samþykkt breytingu á deiliskipulagi sem felur í sér auknar byggingarheimildir á svæði Hlíðarenda. Fyrirhugaðar breytingar fela í sér hækkun á byggingum sem eru í aðflugslínu að neyðarbraut. Tillagan liggur fyrir borgarstjórn í dag til endanlegrar afgreiðslu. Fari hún í gegn er ljóst að nánast útilokað er að enduropna umrædda braut.
Hæstv. forseti. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina hafa staðið vaktina í þessu máli, komið með tillögur að lausnum sem allir hagsmunaaðilar geta unað við. Þeim hefur verið hafnað. Lausnirnar snúa m.a. að því að byggja þannig að komist verði hjá hindrun við neyðarbrautina sem þjónar landsmönnum öllum og styrkir höfuðborgina í hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna. Ég vona að fleiri standi vaktina með okkur Framsóknarmönnum í þessu mikilvæga máli.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 7. mars 2017.