Categories
Fréttir

Hveragerði kolefnishlutlaust sveitarfélag árið 2030

Deila grein

18/03/2019

Hveragerði kolefnishlutlaust sveitarfélag árið 2030

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, varabæjarfulltrúi, Frjálsra með Framsókn í Hveragerði, segir í yfirlýsingu 16. mars að hún hafi á fundi bæjarstjórnar síðastliðinn fimmtudag lagt fram tillögu „frá Frjálsum með Framsókn um kolefnisjöfnun biðreiða í eigu sveitarfélagsins.“ Skemmst er frá því að segja að undirtektir voru mjög góðar við tillögu Jóhönnu Ýrar í bæjarstjórninni.
„Það var ánægjulegt að bæjarstjórnin í Hveragerði vill ganga enn lengra í þessum efnum og hefur sett sér markmið um kolefnishlutlaust sveitarfélag árið 2030,“ segir Jóhanna Ýr.
Var tillaga Frjálsra með Framsókn samþykkt með áorðnum breytingum:
„Hveragerði setji sér markmið um að verða kolefnishlutlaust sveitarfélag árið 2030. Umhverfisnefnd verði falið að undirbúa gerð loftslagsstefnu fyrir Hveragerðisbæ og það hvernig fylgja megi henni efir með gerð aðgerðaráætlunar um hvernig bærinn hyggst ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2030.

Greinargerð:

Sveitarfélög landsins bera ríka ábyrgð á því hvort Ísland nái að uppfylla skuldbindingar sínar í Parísasamkomulaginu um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030.
Með því að setja sér markmið um kolefnishlutlaust sveitarfélag fyrir 2030 myndi Hveragerði skipa sér í fremstu röð þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa ákveðið að axla samfélagslega ábyrgð og setja sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.“