Categories
Greinar

Áfram íslenska – staða íslenskukennslu í skólum

Deila grein

18/03/2019

Áfram íslenska – staða íslenskukennslu í skólum

Íslensk­an er sprelllif­andi tungu­mál. Hún er und­ir­staða og fjör­egg ís­lenskr­ar menn­ing­ar og hún er skóla­málið okk­ar. Hinn 1. apríl nk. skipu­legg­ur mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið ráðstefnu um ís­lensku­kennslu í skól­um lands­ins í sam­vinnu við Há­skóla Íslands, Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, Kenn­ara­sam­band Íslands og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga. Við hvetj­um skóla­fólk og alla vel­unn­ara ís­lensk­unn­ar til þátt­töku.

Ráðstefn­an er liður í aðgerðum okk­ar til þess að efla ís­lensku sem op­in­bert mál hér á landi en þær eru meðal ann­ars kynnt­ar í þings­álykt­un þess efn­is sem lögð var fyr­ir á Alþingi fyrr í vet­ur. Eitt af mark­miðum aðgerðanna er að efla ís­lensku­kennslu á öll­um skóla­stig­um. Á ráðstefn­unni mun­um við meðal ann­ars horfa til niðurstaðna rann­sókn­ar á stöðu ís­lensku­kennslu sem miðlað er í bók­inni Íslenska í grunn­skól­um og fram­halds­skól­um sem ný­verið kom út í rit­stjórn Kristjáns Jó­hanns Jóns­son­ar og Ásgríms Ang­an­týs­son­ar. Um er að ræða fyrstu heild­stæðu rann­sókn­ina sem fram fer á öll­um þátt­um ís­lensku­kennslu hér á landi. Að henni standa sjö ís­lensku­kenn­ar­ar við Há­skóla Íslands og Há­skól­ann á Ak­ur­eyri auk meist­ara- og doktorsnema við skól­ana. Niður­stöðurn­ar sýna já­kvætt og virðing­ar­vert starf en einnig ým­is­legt sem bet­ur má fara.

Það eru blik­ur á lofti og ým­is­legt bend­ir til þess að viðhorf til ís­lensk­unn­ar sé að breyt­ast. Þekkt­ar eru tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um hrak­andi lestr­ar­færni og lesskiln­ing ís­lenskra nem­enda. Nem­end­um sem hafa annað móður­mál en ís­lensku vegn­ar verr í skóla­kerf­inu og þeim er hætt­ara við brott­hvarfi úr námi. Fram­boð á afþrey­ing­ar­efni á ensku hef­ur auk­ist gríðarlega og merki eru um að fleira ungt fólk velji að lesa á ensku. Sam­fara minnk­andi bók­lestri er raun­veru­leg hætta á því að það sem áður var talið eðli­legt rit­mál fari að þykja tyrfið og tor­lesið.

Við ætl­um að snúa vörn í sókn fyr­ir ís­lensk­una. Kenn­ar­ar og skóla­fólk eru lyk­ilaðilar í því að vekja áhuga nem­enda á ís­lensku máli en slík­ur áhugi er for­senda þess að ís­lensk­an þró­ist og dafni til framtíðar. Að sama skapi er áhuga- og af­stöðuleysi það sem helst vinn­ur gegn henni. Við náum ár­angri með góðri sam­vinnu og á ráðstefn­unni mun gef­ast gott tæki­færi til að fræðast, greina stöðuna og skipt­ast á skoðunum um stöðu og framtíð ís­lensku­kennslu í skól­um lands­ins. Ég hvet alla sem hafa brenn­andi áhuga á þessu mik­il­væga mál­efni til þess að mæta á ráðstefn­una.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. mars 2019.