Categories
Greinar

Kynntu þér framtíðina um helgina

Deila grein

18/03/2019

Kynntu þér framtíðina um helgina

Um þess­ar mund­ir stend­ur Verkiðn fyr­ir náms- og starf­s­kynn­ingu fyr­ir nem­end­ur í efri bekkj­um grunn­skóla í tengsl­um við Íslands­mót iðn- og verk­greina sem nú fer fram í Laug­ar­dals­höll und­ir yf­ir­skrift­inni Mín framtíð. Þar munu 33 skól­ar á fram­halds­skóla­stigi kynna fjöl­breytt náms­fram­boð, bæði verk­legt og bók­legt, og svara spurn­ing­um um náms­fram­boð og inn­töku­skil­yrði. Þessi viðburður er jafn­an fjöl­sótt­ur enda gefst þar ein­stakt tæki­færi til þess að kynn­ast náms­fram­boði og starf­stæki­fær­um sem standa til boða hér á landi.

For­gangs­mál

Í stjórn­arsátta­mál­an­um er kveðið á um mik­il­vægi þess að efla iðn-, verk- og starfs­nám og að því höf­um við unnið öt­ul­lega síðustu miss­eri. Það er gleðilegt að sjá að vís­bend­ing­ar eru um að aðgerðir í þá veru séu farn­ar að skila ár­angri, m.a. með fjölg­un um­sókna í iðnnám. Sem mennta­málaráðherra hef ég beitt mér fyr­ir betra sam­tali milli mennta­kerf­is­ins og at­vinnu­lífs­ins en ráðuneytið og hags­muna­fé­lög á þeim vett­vangi standa sam­eig­in­lega að ýms­um hvatn­ing­ar­verk­efn­um sem þessu máli tengj­ast, t.d. Verk­smiðjunni, nýrri hug­mynda­sam­keppni fyr­ir nem­end­ur í efstu bekkj­um grunn­skóla, #Kvenn­astarf sem miðar að því að fjölga kon­um í iðn- og verk­grein­um og GERT-verk­efnið sem teng­ir skóla og fyr­ir­tæki með það að mark­miði að auka áhuga nem­enda á raun­vís­ind­um og tækni. Þá höf­um við for­gangsraðað fjár­mun­um í þágu starfs- og verk­náms með því að hækka reikni­flokka þess náms, af­numið efn­is­gjöld og tryggt fram­lög til að efla kennslu­innviði fyr­ir verk- og starfs­nám, t.d. með bættri verk­námsaðstöðu í Fjöl­brauta­skól­an­um í Breiðholti og Borg­ar­holts­skóla.

Fjölg­um iðn- og verk­menntuðum

For­senda vel­ferðar og lífs­gæða á Íslandi er öfl­ugt og fjöl­breytt at­vinnu­líf þar sem til staðar eru störf fyr­ir menntað fólk sem stuðlar að ný­sköp­un og þróun. Fjórða iðnbylt­ing­in hef­ur hafið inn­reið sína og hún fel­ur í sér sjálf­virkni­væðingu á öll­um sviðum at­vinnu­lífs og sam­fé­lags sem leiðir af sér mik­il tæki­færi til að þróa starfs­mennt­un til móts við nýj­ar kröf­ur. Stjórn­völd leggja sér­staka áherslu á mik­il­vægi starfs- og tækni­náms enda mik­ils að vænta af fram­lagi þess til verðmæta­sköp­un­ar framtíðar­inn­ar. Í alþjóðleg­um sam­an­b­urði er hlut­fall há­skóla­menntaðra hér á landi á sviði tækni, vís­inda, verk- og stærðfræði mjög lágt, aðeins 16%. Mik­il­vægt er að fjölga þeim sem eru með mennt­un á þeim sviðum til þess að við séum bet­ur búin und­ir að mæta áskor­un­um framtíðar­inn­ar.

Spenn­andi tím­ar

Náms­fram­boð í starfs- og tækni­námi hér á landi er afar fjöl­breytt. Þau tæki­færi sem bjóðast að námi loknu eru bæði mörg og spenn­andi enda mik­il spurn eft­ir slíkri mennt­un í at­vinnu­líf­inu. Til marks um gæði náms­ins sem í boði er má geta þess að ís­lensk­ir kepp­end­ur náðu sín­um besta ár­angri í Evr­ópu­keppni iðnnema á síðasta ári en hóp­ur­inn hlaut þá þrjár viður­kenn­ing­ar fyr­ir framúrsk­ar­andi ár­ang­ur auk silf­ur­verðlauna Ásbjörns Eðvalds­son­ar sem keppti þar í raf­einda­virkj­un.

Spreyttu þig

Alls taka um þrjá­tíu iðn-, verk- og tækni­grein­ar þátt í kynn­ing­unni Mín framtíð og á morg­un, laug­ar­dag, eru fjöl­skyld­ur sér­stak­lega boðnar vel­komn­ar. Hvatt er til þess að gest­ir komi og prófi sem flest­ar þeirra og spreyti sig t.d. á því að teikna grafík í sýnd­ar­veru­leika, smíða, stýra vél­menni, splæsa net eða krulla hár. Þessi kynn­ing er mik­il­væg því það að sjá, upp­lifa og taka þátt tendr­ar oft meiri áhuga og inn­sýn en að lesa bæk­linga eða skoða heimasíður.

Ég hvet sem flesta til þess að gera sér ferð í Laug­ar­dals­höll og kynna sér nám og störf í iðn- og tækni­grein­um því marg­breyti­leiki þeirra mun án efa koma flest­um á óvart. Við lif­um á spenn­andi tím­um þar sem störf eru að þró­ast og breyt­ast en nægt rými er fyr­ir atorku og hug­kvæmni ungs fólks.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2019.