Categories
Fréttir

Hvers vegna veggjöld?

Deila grein

11/12/2018

Hvers vegna veggjöld?

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var spurður í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær hvort að hann hafi skipt um skoðun á veggjöldum.
Sigurður Ingi sagði í svari sínu að hann vildi árétta það sem hann hafi þurft að segja nokkuð oft. „Fyrir ári sagði ég að það væru engin vegtollahlið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég hefði talað gegn þeim, þeir væru ekki í stjórnarsáttmálanum og þar af leiðandi ekki á minni dagskrá. Það breytir því hins vegar ekki að veggjöld hafa alltaf komið til greina. Hvalfjarðarganga-módelið hefur t.d. gengið mjög vel og lauk núna með farsælum hætti þar sem við hættum gjaldtöku, eftir því sem menn höfðu sagt hér á Alþingi. Það var sagt að þessi lög ættu að standa í 20 ár og þegar gjaldtökunni væri lokið yrði göngunum skilað til þjóðarinnar. Við það stóðum við,“ sagði Sigurður Ingi.

Hvers vegna veggjöld?
Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, í orkuskiptum, „höfum við orðið þess fullviss að tekjur ríkisins af bensín- og dísilgjöldum munu fara hratt lækkandi næstu ár. Þær tekjur munu ekki duga fyrir þeim vegaframkvæmdum sem við almennt sættum okkur við. Eru í dag einhverjir 17-18 milljarðar, lækka um 25-50% til ársins 2025 samkvæmt spám og gætu þess vegna verið orðnir að einhverjum 9 milljörðum árið 2025 — og ég held að enginn sætti sig við það,“ sagði Sigurður Ingi.
„Varðandi tímapressuna veit hv. þingmaður (Björn Leví Gunnarsson), sem er áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, að það hefur verið mikil vinna í allt haust. Þessi áform voru upphaflega kynnt í samgönguáætluninni. Það var talað um að vel kæmi til greina að skoða aðra þætti eins og þá sem verið hafa til skoðunar í nefndinni. Ég veit að í samtölum við alla gesti, sem hafa verið fjölmargir, og á fjölmörgum nefndarfundum og í viðræðum í nefndinni hefur slíkt komið fram og þetta samtal átt sér stað. Ef það gengur upp að ná að ljúka þessu núna væri það frábært vegna þess að fjögurra ára áætlunin er að renna út í lok þessa árs. Það er mjög mikilvægt fyrir Vegagerðina að hafa svolítinn fyrirsjáanleika í áætlunum sínum og hönnun og útboðum, m.a. til að ná fram eins mikilli hagræðingu í rekstri og útboðum og hægt er,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.