Ingvar Gíslason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er látinn. Ingvar lést sl. miðvikudag á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi, 96 ára að aldri.
Ingvar fæddist í Nesi í Norðfirði 28. mars 1926. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Hjálmarsson Kristjánsson útgerðarmaður og Fanný Kristín Ingvarsdóttir húsmóðir.
Ingvar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1947. Hann stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1947-1948 og í sagnfræði við háskólann í Leeds á Englandi 1948-1949. Hann lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands árið 1956. Héraðsdómslögmaður varð hann 1962.
Ingvar gegndi ýmsum störfum eftir námið og var m.a. skrifstofustjóri Framsóknarflokksins á Akureyri 1957-1963 og stundaði jafnframt ýmis lögfræðistörf.
Ingvar var árið 1961 kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn og var alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra frá 1961 til 1987. Árið 1980 var Ingvar skipaður menntamálaráðherra og gegndi því embætti til 1983. Hann var forseti neðri deildar Alþingis á árunum 1978-1979 og 1983-1987. Hann var formaður þingflokks Framsóknarmanna 1979-1980.
Ingvar sat um árabil í stjórn atvinnubótasjóðs, síðar atvinnujöfnunarsjóðs. Hann átti m.a. sæti í rannsóknaráði, í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins og sat í húsafriðunarnefnd 1974-1983.
Ingvar átti sæti í Kröflunefnd 1974-1980. Hann var fulltrúi á þingi Evrópuráðsins 1971-1980 og 1983-1987 og sat nokkur ár í forsætisnefnd þess. Hann var í útvarpsréttarnefnd og í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í mörg ár.
Þá var Ingvar um skeið í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda. Ingvar var einnig ritstjóri tímarita og blaða, m.a. Stúdentablaðsins, Vikutíðinda og var ritstjóri Tímans 1987-1991. Hann ritaði fjölda greina í blöð og tímarit og birt voru eftir hann nokkur ljóð. Hlaut hann verðlaun í ljóðasamkeppni á vegum menningarmálanefndar Akureyrar 1989. Árið 2016 sendi hann frá sér bókina Úr lausblaðabók – Ljóðævi.
Eiginkona Ingvars var Ólöf Auður Erlingsdóttir, fædd 1928, dáin 2005. Börn þeirra eru: Fanný, Erlingur Páll, Gísli, Sigríður og Auður Inga.
Við Framsóknarfólk minnumst ráðherra og alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti fyrir störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar.
Framsóknarfólk vottar aðstandendum innilega samúð.