Categories
Greinar

Sjálfstæði á óvissutímum

Deila grein

22/08/2022

Sjálfstæði á óvissutímum

Orku­mál og sjálf­bærni þeirra hafa verið í brenni­depli vegna hlýn­un­ar jarðar um nokkra hríð. Í kjöl­farið á inn­rás Rússa í Úkraínu og deil­um þeirra við Evr­ópu­sam­bandið vegna refsiaðgerða er kom­in upp óviss­ustaða í orku­mál­um í álf­unni. Ekk­ert ríki í heim­in­um flyt­ur út jafn mikið gas og Rúss­land, en um helm­ing­ur alls gass sem notað er inn­an ESB kem­ur frá Rússlandi. Staðan er nú þannig að ekki er víst að Evr­ópa muni eiga nóg af gasi fyr­ir kom­andi vet­ur. Skort­ur á gasi í Evr­ópu leiðir til sam­drátt­ar með til­heyr­andi af­leiðing­um fyr­ir fyr­ir­tæki og fjöl­skyld­ur. Sam­kvæmt spám gæti verg lands­fram­leiðsla í ESB-ríkj­um lækkað um allt að 1,5% ef vet­ur­inn verður harður með al­var­leg­um trufl­un­um á gasbirgðum. Talað er um að þýsk­ur iðnaður gæti staðið frammi fyr­ir al­var­legri ógn vegna skorts á orku. Orku­verð á heimsvísu hef­ur hækkað veru­lega og hækkað fram­færslu­kostnað Evr­ópu­búa. Frá því snemma á síðasta ári hef­ur heims­markaðsverð á olíu tvö­fald­ast, verð á kol­um nærri fjór­fald­ast og verð á evr­ópsku jarðgasi nán­ast sjö­fald­ast. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn ger­ir ráð fyr­ir að fram­færslu­kostnaður heim­ila hækki að meðaltali um 7% miðað við það sem gert var ráð fyr­ir snemma árs 2021. Sum ríki skera sig þó úr en talið er að fram­færslu­kostnaður heim­ila í Eistlandi geti hækkað um allt að 20%.

Reyn­ir á sam­stöðu inn­an ESB

Í síðasta mánuði lagði fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins fram til­lögu til að sporna við gasskorti á þá leið að aðild­ar­rík­in drægju úr gasnotk­un um 15% næsta vet­ur. Til­lag­an hef­ur sætt nokk­urri and­stöðu inn­an sam­bands­ins en Spán­verj­ar, Grikk­ir, Portú­gal­ar, Ítal­ir, Pól­verj­ar og Kýp­verj­ar eru meðal ann­ars and­víg­ir áætl­un­inni og halda því fram að eitt yf­ir­grips­mikið mark­mið sé ósann­gjarnt miðað við mis­mun­andi orku­sam­setn­ingu aðild­ar­ríkj­anna. Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins met­ur ástandið það al­var­legt að huga þurfi að því hvort sam­drátt­ur­inn þurfi að vera lög­boðinn inn­an sam­bands­ins. Það er greini­legt að fram und­an eru erfiðar samn­ingaviðræður milli ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins þar sem reyna mun á sam­stöðu þeirra.

Ísland nýt­ur sér­stöðu í orku­mál­um

Ég vil í þessu sam­bandi vekja máls á því að það skipt­ir veru­legu máli að vera sjálf­bær á sem flest­um sviðum. Á meðan ná­grann­ar okk­ar í Evr­ópu sjá fram á harðan vet­ur í orku­mál­um stönd­um við mun bet­ur að vígi. Við Íslend­ing­ar höf­um gríðar­mik­il tæki­færi þegar kem­ur að því að búa til græna orku og þar get­um við gert enn bet­ur. Aðgerðir í lofts­lags­mál­um til að ná kol­efn­is­hlut­leysi hafa fram­kallað græna iðnbylt­ingu um all­an heim og við erum meðvituð um mik­il­vægi þess að hraða um­skipt­um yfir í græna end­ur­nýj­an­lega orku. Það er verðugt mark­mið og raun­hæft að Ísland verði fyrst ríkja óháð jarðefna­eldsneyti árið 2040 en ávinn­ing­ur­inn af því að venja okk­ur af jarðefna­eldsneyti er ekki aðeins fyr­ir lofts­lagið, held­ur skipt­ir það máli fyr­ir sjálf­stæði þjóðar­inn­ar til lengri tíma litið. Orku­ör­yggi er þjóðarör­ygg­is­mál, við Íslend­ing­ar erum óþægi­lega háð inn­flutt­um orku­gjöf­um á viss­um sviðum og mik­il­vægt að við drög­um úr inn­flutn­ingi á orku­gjöf­um. Orku­ör­yggi kall­ar á aukna raf­orku­fram­leiðslu og öfl­ugra flutn­ings- og dreifi­kerfi sem aft­ur kall­ar á heild­rænt skipu­lag orku­kerf­is­ins og samþætt­ingu verk­ferla. Þá þarf einnig að mæta orkuþörf­inni með bættri ork­u­nýt­ingu og aukn­um orku­sparnaði.

Til að ná þessu fram er mik­il­vægt að unnið sé í sem mestri sátt um vernd og nýt­ingu landsvæða og nátt­úru­auðlinda. Okk­ar verk­efni nú er að leita leiða í sam­ein­ingu og sátt um hvernig við ætl­um að fram­leiða okk­ar grænu orku, hvort sem það er með vatns­afli, vindorku eða öðrum aðferðum.

Ágúst Bjarni Garðars­son, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. ágúst 2022.