Categories
Fréttir

Ísland getur skapað sér sess á meðal forystuþjóða í fullnýtingu þara

Deila grein

14/03/2023

Ísland getur skapað sér sess á meðal forystuþjóða í fullnýtingu þara

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Starfshópurinn leggi áherslu á eftirfarandi:

  1. Hvernig lög og reglur styðji við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir eða eru ræktaðir í sjó eða á landi.
  2. Hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varði öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim.
  3. Hvernig styrkja megi eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungaræktun innan viðeigandi stofnana.

Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til Alþingis eigi síðar en 1. mars 2023.“

„Sjálfbær þróun náttúruauðlinda er eitt af markmiðum stjórnarsáttmálans og fellur þörungaræktun og nýting sjávarþörunga vel þar að. Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu sem skyldar þær 195 þjóðir sem skrifuðu undir það til að vinna saman að því að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum undir 2°C. Samfara fjölgun mannkyns, aukinni neyslu og ósjálfbærum aðferðum í ræktun og veiði hefur álag á vistkerfi jarðarinnar aukist gífurlega á undanförnum áratugum.

Íslensk stjórnvöld höfðu forgöngu um NordBio-verkefnið (Nordic Bioeconomy eða Norræna lífhagkerfið) sem stóð yfir í þrjú ár frá 2014 til 2016. NordBio var norræn samstarfsáætlun sem hafði það að markmiði að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda og styrkja norræna samvinnu á því sviði. Áhersla var lögð á að draga úr sóun og álagi á umhverfi og að efla nýsköpun, rannsóknarsamstarf, menntun, atvinnulíf og byggðaþróun, en með lífhagkerfi er í stuttu máli átt við þann hluta hagkerfisins sem byggist á endurnýjanlegum auðlindum til sjós og lands. Sjálfbær nýting þörunga fellur vel að þessu verkefni.

Hafrannsóknastofnun vann árið 2018 rannsókn á útbreiðslu og magni klóþangs í Breiðafirði að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis þar sem gera má ráð fyrir að fleiri vilji sækja í þessa auðlind. Á grundvelli þeirrar rannsóknar ráðlagði Hafrannsóknastofnun í samræmi við varúðarsjónarmið að heildartekja klóþangs í Breiðafirði árin 2018–2022 færi ekki yfir 40 þúsund tonn á ári. Frá árinu 1980 hefur uppskera verið á bilinu 10–18 þúsund tonn á ári og hefur nær eingöngu verið á vegum Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum.

Bláa hagkerfið

Á íslensku mætti kalla „bláa hagkerfið“ hagkerfi hafsins en hugtakið tekur yfir hvaðeina sem snertir lífríki hafsins og nýtingu þess með einhverjum hætti. Meðal rótgróinna greina bláa hagkerfisins eru fiskveiðar, fiskvinnsla, fiskeldi, hafnir og hafnargerð, skipasmíðar og viðhald skipa, ferðamennska tengd hafi og ströndum, olíu- og gasvinnsla undan ströndum og flutningastarfsemi. Meðal nýgreina eða vaxtarsprota eru vindorkuver undan ströndum, öflun orku úr hafstraumum og bylgjuhreyfingum og ýmiss konar líftæknistarfsemi tengd hafinu eins og öflun og nýting þörunga.

Á vefsvæði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er yfirlit yfir þá geira bláa hagkerfisins sem taldir eru búa yfir möguleikum til sjálfbærs vaxtar, þ.e. fiskeldi, ferðamennska á strandsvæðum, líftækni tengd hafinu, orkuöflun í hafinu og námuvinnsla á hafsbotni. Þar er einnig getið þeirra sviða sem talið er að best séu fallin til að ná markmiðunum, þ.e. aukin þekking á hafinu og lífverum þess, bætt hafskipulag og samþætt eftirlits- og upplýsingakerfi til að fylgjast með breytingum á hafinu.

Um 300 tegundir af stórþörungum finnast umhverfis Ísland. Mögulegt er að nýta þörunga í margs konar framleiðslu, t.d. sem íblöndunarefni í matvæli, efni í fiskeldi, efni í dýraeldi, náttúrulyf, fæðubótarefni og snyrtivörur auk þess sem horft hefur verið til framleiðslu á bíógasi og etanóli. Matís ohf. hefur á síðustu árum lagt töluverða áherslu á rannsóknir á nýtingu á þangi og þara, m.a. í matvælaframleiðslu og við gerð húðvara. Slík nýsköpun fellur vel að markmiðum hins bláa hagkerfis.

Sá aðili sem helst hefur vakið máls á málefnum bláa hagkerfisins er Sjávarklasinn. Nýlega gaf hann út ritið Bak við ystu sjónarrönd sem styrkt var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Ritið er aðgengilegt á netinu.

Þá má nefna að í júní 2020 var Sjávarakademía Sjávarklasans sett á laggirnar í nánu samstarfi við Fisktækniskóla Íslands en þar gefst nemendum kostur á að kynnast frumkvöðlastarfsemi sem tengist hafinu, læra um sjálfbærni og hvernig bæta megi umhverfi og afurðir hafsins. Með tilliti til þess hversu mikla þýðingu hafið og auðlindir hafs og stranda hafa fyrir íslenskan efnahag má ugglaust staðhæfa að vandfundið sé blárra hagkerfi en hið íslenska. Samt sem áður hefur nánast ríkt þögn um bláa hagkerfið á Alþingi undanfarin ár.

Þörungar eru ekki aðeins næringarrík fæðutegund sem framleiðir mikið magn súrefnis heldur má einnig nýta þá til framleiðslu á lífeldsneyti og fóðri og sem áburð. Sumar smáþörungategundir eru olíuríkar og úr þeim er hægt að framleiða lífeldsneyti sem endurnýtir koltvísýring úr loftinu. Framleiða má lífeldsneyti hérlendis í miklu magni svo að það geti komið í staðinn fyrir innflutt eldsneyti og þannig dregið úr neikvæðum áhrifum eldsneytisnotkunar á umhverfið. Lífeldsneyti getur auk þess orðið verðmæt útflutningsvara en með framleiðslu þess má bæði spara gjaldeyri og auka útflutningstekjur. Þegar búið er að vinna lífeldsneyti úr þörungum er hægt að nýta það sem eftir verður til þess að framleiða verðmætt fóður fyrir fiskeldi sem og fóður fyrir kjúklinga og svín.

Því er ljóst að sjálfbær öflun þörunga og aukin nýting þeirra getur hjálpað til við að minnka álag á önnur vistkerfi jarðarinnar, draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og hafa jákvæð áhrif á vistkerfi hafsins. Möguleikar á frekari nýtingu þörunga til hagsbóta fyrir umhverfið eru þannig miklir og gætu verið lykillinn að því að leysa einhverjar af þeim áskorunum sem við okkur blasa til að tryggja fæðuöryggi kynslóða framtíðarinnar. Þá má sannarlega segja að framtíðin sé núna og því er ekki seinna vænna en að byrja að nota þessa dásamlegu sjálfbæru auðlind sem finna má í fjörum okkar.

Markaður fyrir þörunga

Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og fer vaxandi. Samkvæmt skýrslu Report Linker um heimsmarkað fyrir þörunga frá því í júlí 2020 var áætluð velta árið 2020 fyrir þörungaprótín 912,8 millj. dala og því spáð að hann vaxi í 1,3 milljarða dala árið 2027. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að vaxandi eftirspurn sé eftir matvæla- og drykkjarafurðum sem innihalda þörunga. Ísframleiðendur eru líka farnir að bæta örþörungum við afurðir sínar til að auka næringargildi vörunnar. Sem stendur framleiða þessi fyrirtæki mikið úrval af vörum úr þörungum. Þar er m.a. að finna andoxunarefni, prótín og bragð- og litarefni. Nú má finna á veitingastöðum um allan heim vörur sem innihalda að einhverju leyti efni úr þörungavinnslu. Efnin er líka að finna í bjór, snyrtivörum, græðandi kremum og mörgum öðrum vörum.

Vöxtur í þörungaframleiðslu í heiminum er áætlaður um 7,4% á ári til ársins 2024 og að veltan verði um 1,1 milljarður bandaríkjadala árið 2024 samkvæmt greiningu Sjávarklasans frá því í nóvember árið 2019. Mörg fyrirtæki eru að taka sín fyrstu spor á þessu sviði og þess má vænta að veltuaukningin í greininni verði allveruleg á næstu árum. Önnur fyrirtæki eru þegar í startholunum og að meðaltali hefur komið fram eitt nýtt fyrirtæki á ári frá 2012. Í þessari grein liggja mýmörg áhugaverð tækifæri fyrir íslenskt athafnalíf. Sum fyrirtækjanna gera ráð fyrir mjög hröðum vexti og samkvæmt Sjávarklasanum er almennt gert ráð fyrir 10% vexti á ári.

Nýting þörunga

Á tímum sem þessum er fæðuöryggi í algleymingi. Fleiri skynja án efa mikilvægi öflugrar matvæla- og heilsuefnaframleiðslu hér á landi og eðlilegt er að horfa til þess hvaða frekari tækifæri kunna að vera fyrir matvælalandið Ísland á komandi árum. Við strendur landsins eru víðfeðmir þaraskógar sem geta orðið enn ein stoðin í eflingu landsins sem matvæla- og bætiefnalands. Þörungategundir eða efni unnin úr þeim eru nú þegar hluti af daglegu lífi flestra Íslendinga þótt fæstir geri sér grein fyrir því. Þörungamjöl eða þörungaþykkni er metið að verðleikum um allan heim og er það flutt héðan lífrænt vottað.

Það fyrirtæki sem á lengsta sögu um nýtingu þörunga hérlendis, og er enn starfandi, er Þörungaverksmiðjan Thorverk á Reykhólum, sem framleiðir gæðamjöl úr þara og þangi. Mörg minni fyrirtæki framleiða ýmis matvæli og krydd úr þara, t.d. Fisherman, Saltverk, Íslensk hollusta og Seaweed Iceland. Þá hafa nokkur fyrirtæki hér, eins og Algae Náttúra, Taramar og Zeto, nýtt þara frá Thorverk til framleiðslu á húð- og heilsuvörum. Einnig hafa Taramar, Zeto og fyrirtækið Marinox öll þróað lífvirk efni úr þara fyrir húðvörur.

Nýsköpun og fyrirtækjarekstur í tengslum við þara hérlendis er að stórum hluta á byrjunar- og vaxtarstigi. Þó er nýsköpun í tengslum við hvers konar þróun á heilsuefnum og lífvirkum efnum úr þessu hráefni þegar komin lengra hér en í nágrannalöndunum. Þá eru einnig tækifæri í þróun þara til að nýta hann í ýmsar umbúðir og fatnað í stað annarra efna sem eru skaðleg fyrir umhverfið. Með því að auka fjárfestingar og rannsóknarstyrki til nýsköpunar við nýtingu þörunga getur Ísland náð enn meiri fótfestu á þessu sviði og skapað sér sess á meðal forystuþjóða í fullnýtingu þara.“