Categories
Fréttir

Íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta

Deila grein

08/02/2022

Íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, sagði í umræðu á Alþingi um fjarnám og stafræna kennsluhætti á háskólastigi að á síðustu tveimur árum hafi almenn færni í notkun stafrænnar miðlunar, fjarvinnu og fjarkennslu tekið stökkbreytingum. Minnti hún þingheim á þingsályktun sína um „fjarnám á háskólastigi“ þar sem einmitt sé lagt til að skipaður verði starfshópur til að vinna aðgerðaáætlun um frekari eflingu fjarnáms með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta.

„Í tillögunni er lögð áhersla á að íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta, bæði til að auka aðgengi að námi og gæði alls náms, hvort sem nemandi stundar námið innan veggja háskólanna eða í fjarnámi,“ sagði Líneik Anna. 

Líneik Anna kom að spurningum í ræðu sinni til ráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar og spurði hvernig hægt væri að fá háskóla til að auka framboð á stafrænu námi.  Eins spurði Líneik Anna hvort að til greina komi að skilgreina hópa fólks sem vegna sérstakra aðstæðna, svo sem búsetu, fjölskylduaðstæðna eða ástundunar afreksíþrótta, ættu rétt á tilteknum sveigjanleika í námi þó lögð sé stund á nám sem einkum eru í boði sem staðnám.

„Það er mikið hagsmunamál fyrir einstaklingana og samfélagið á landsbyggðinni að hægt sé að stunda nám án búferlaflutninga en jafnframt að afla þekkingar sem samfélögin þurfa á að halda, svo dæmi sé tekið í félagsráðgjöf og talmeinafræði sem mikið er kallað eftir. Einstaklingarnir hugsa auðvitað um hvað hægt sé að gera núna, ekki eftir fjögur ár þegar innleiðing stefnu háskólanna verður komið til framkvæmda,“ sagði Líneik Anna.