Categories
Fréttir

Jöfnun aðstöðu millilandaflugvalla

Deila grein

06/10/2016

Jöfnun aðstöðu millilandaflugvalla

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Enn og aftur ætla ég að ræða málefni flugsins. Fyrir skemmstu lagði ég ásamt fleiri hv. þingmönnum fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara í þeim tilgangi að jafna eldsneytisverð á millilandaflugvöllum. Nú er við lýði jöfnun á flutningskostnaði á olíuvörum sem tryggir að eldsneytisverð sé hið sama um land allt til einstaklinga og fyrirtæki. Fyrir því eru einföld sanngirnisrök auk þess sem mikilvægt er að jafna eins og kostur er búsetuskilyrði og samkeppnisstöðu fyrirtækja vítt og breitt um landið. Þessi jöfnun hefur ekki gilt um eldsneyti sem ætlað er til ferða milli landa, t.d. flugvélaeldsneyti til millilandaflugs. Þetta leiðir til þess að eldsneyti er mun dýrara á millilandaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík. Þetta skekkir samkeppnisstöðu vallanna og vinnur gegn því flugfélög sjái sér fær að setja á fót reglubundið flug til annarra staða á Íslandi en Keflavíkur. Því er lagt til að jöfnunarkerfið nái einnig til olíu sem ætluð er til notkunar í millilandasiglingum og millilandaflugi. Markmiðið er að jafna aðstöðu millilandaflugvalla og -hafna.
Áhugi á millilandaflugi til nýrra áfangastaða hefur aukist og nú þegar hafa nokkur flugfélög sent inn umsóknir um styrk úr flugþróunarsjóði sem komið var á á árinu. Ég álít því mikilvægt að fá fram sem fyrst viðbrögð hagsmunaaðila við frumvarpinu sem hér liggur fyrir og að málið fái umfjöllun á Alþingi þótt varla náist að afgreiða það á þessu þingi. Það kann að vera að aðrar leiðir séu færar og jafnvel betri til þess að jafna samkeppnisaðstöðu millilandaflugvalla en það er mikilvægt að komast að því.“
Líneik Anna Sævarsdóttir 6. október 2016.