Categories
Fréttir

Jöfnun húshitunarkostnaðar

Deila grein

08/02/2015

Jöfnun húshitunarkostnaðar

ásmundurÁsmundur Einar Daðason, alþingismaður, ræddi húshitunar- og rafmagnskostnað í dreifbýli á Alþingi í síðustu viku. En fram er komið frumvarp frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra er miðar að því að jafna dreifikostnað á raforku í hinum dreifðu byggðum landsins. „Það er vel og vil ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir það. Frumvarpið er nú til meðferðar í þinginu og bíður 2. umræðu,“ sagði Ásmundur Einar.
„Annað mál sem er gríðarlega mikilvægt snýr að jöfnun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Það er nefnilega svo að vítt og breitt um landið í hinum dreifðu byggðum búa ekki allir við það að geta kynt hús sín með heitu vatni á jafn hagkvæman hátt og margir þekkja á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þetta hefur í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir þá einstaklinga, fyrir þau fyrirtæki og fjölskyldur sem búa á þessum svæðum,“ sagði Ásmundur Einar.
Báðir stjórnarflokkarnir kveða skýrt á um í flokksþings- og landsfundarályktunum sínum að það skuldi jafna húshitun á köldum svæðum. Sjálfstæðimenn sögðu á landsfundi: „Gengið verði til tafarlausra aðgerða til þess að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er mestur.“ Og Framsóknarmenn sögðu: „Lagt verði á sérstakt jöfnunargjald sem verði notað til að greiða niður húsnæðiskostnað og flutningskostnað á raforku með það að leiðarljósi að jafna kostnað við húshitun á landsvísu.“ Loks segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: „Unnið verður að jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar.“
Þrátt fyrir þetta hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður E. Árnadóttir, ekki enn lagt fram frumvarp um jöfnun á dreifikostnaði raforku.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.