Categories
Fréttir

Jón Sigurðsson látinn

Deila grein

11/09/2021

Jón Sigurðsson látinn

Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknrflokksins og ráðherra, er látinn, 75 ára að aldri. Jón lést í gær á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Jón greindist með langt gengið krabbamein í blöðruhálskirtli í ársbyrjun í fyrra.

Jón var fæddur í Kollafirði á Kjalarnesi þann 23. ágúst 1946. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1966 og þremur árum síðar brautskráðist hann með BA-próf í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands. Frá útskrift í MR vann hann við kennslustörf í gagnfræðaskólum, menntaskólum og háskólum hér á landi og í Svíþjóð til ársins 1975.

Jón var ritstjóri Tímans frá 1978 til 1981. Hann tók þá við starfi skólastjóra Samvinnuskólans á Bifröst og varð síðar rektor skólans til ársins 1991. Hann útskrifaðist með MA gráðu í menntunarfræðum og kennslustjórnun frá Columbia Pacific University í San Rafael í Bandaríkjunum árið 1988 og doktorsgráðu í sömu greinum árið 1990. Þá lauk hann MBA-gráðu í rekstrarhagfræði og stjórnun frá National University í San Diego í Bandaríkjunum árið 1993.

Jón var seðlabankastjóri á árunum 2003 til 2006. Jón tók við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde 2006 og gegndi því til ársins 2007. Á sama tíma og hann gegndi ráðherraembættinu var hann formaður Framsóknarflokksins.

Framsóknarfólk minnast formanns og ráðherra með djúpri virðingu og þakklæti. Aðstandendum er vottuð samúð og þakkir fyrir ómældar fórnir í þágu Framsóknarflokksins og íslensku þjóðarinnar.