Categories
Fréttir

Keðjuverkunin rofin sem frostið veldur

Deila grein

19/04/2023

Keðjuverkunin rofin sem frostið veldur

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi stöðu ungs fólks og annarra fyrstu kaupenda sem sjá sér ekki fært að kaupa fasteign á algerlega frosnum markaði, í störfum þingsins. Segi hann þessa þróun hafa verið að raungerast á síðustu 12 mánuðum og muni að óbreyttu halda áfram. Segir Ágúst Bjarni að aðgerðir Seðlabankans varðandi lánþegaskilyrði skipta hér öllu máli. „Það skiptir engu máli hversu vel eignir eru auglýstar og hversu oft er opið hús, eignin hreinlega selst ekki.“

Bendir Ágúst Bjarni á að bregðast verði við ástandinu, fyrstu kaupendur og aðrir sem vilja kaupa eða selja í núverandi árferði lenda í rofinni keðjuverkun sem frostið veldur.

„Nú berast okkur fréttir af því að keðjan sé rofin og fáum takist að kaupa eða selja eignir í núverandi ástandi. Almennt gerir fólk tilboð í fasteign með fyrirvara um sölu en það sem hefur færst í aukana er að veita þurfi lengri frest, með fyrirvara, eða hætta þurfi við viðskipti sökum þess að í núverandi ástandi er eftirspurnin lítil sem engin,“ sagði Ágúst Bjarni.

Alþingi hefur þau verkfæri er þarf til s.s., „að rýmka reglur og kröfur um veitingu hlutdeildarlána, breyta reglum um veðsetningu lána til fyrstu kaupenda og ráðast í framkvæmdir til að auka framboð á hagkvæmu húsnæði sem hentar fyrstu kaupendum, í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóði.

Við getum stuðlað að því, með hækkandi sól, að frostið sem einkennir fasteignamarkaðinn um þessar mundir fari að þiðna,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi

„Virðulegur forseti. Ég ætla enn og aftur að koma hingað upp og ræða ástandið á húsnæðismarkaði. Aðgerðir Seðlabankans varðandi lánþegaskilyrði hafa orðið til þess að algjört frost er á markaðnum um þessar mundir. Ungt fólk og aðrir fyrstu kaupendur sjá sér ekki fært að kaupa fasteign á algerlega frosnum markaði. Þessi þróun hefur verið að raungerast síðustu 12 mánuði og mun að óbreyttu halda áfram.

Við sjáum þá keðjuverkun sem frostið veldur. Nú berast okkur fréttir af því að keðjan sé rofin og fáum takist að kaupa eða selja eignir í núverandi ástandi. Almennt gerir fólk tilboð í fasteign með fyrirvara um sölu en það sem hefur færst í aukana er að veita þurfi lengri frest, með fyrirvara, eða hætta þurfi við viðskipti sökum þess að í núverandi ástandi er eftirspurnin lítil sem engin.

Við sjáum það að einstaklingum sem eru að stækka við sig og ætla að selja sína fyrstu eign reynist það oft ómögulegt þar sem kaupendahópur fyrstu eigna er horfinn af markaðnum. Það skiptir engu máli hversu vel eignir eru auglýstar og hversu oft er opið hús, eignin hreinlega selst ekki. Eins og ég segi getur þetta t.d. verið fjölskylda sem þarf að stækka við sig í samræmi við fjölgun.

Virðulegi forseti. Enn og aftur sjáum við að bregðast þarf við ástandinu á fasteignamarkaði. Það eru ekki einungis fyrstu kaupendur sem bíta í það súra, heldur á það við um alla sem vilja kaupa eða selja í núverandi árferði. Nauðsynlegt er að nýta þau verkfæri sem við hér á Alþingi höfum og ég hef oft nefnt, t.d. að rýmka reglur og kröfur um veitingu hlutdeildarlána, breyta reglum um veðsetningu lána til fyrstu kaupenda og ráðast í framkvæmdir til að auka framboð á hagkvæmu húsnæði sem hentar fyrstu kaupendum, í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóði. Við getum stuðlað að því, með hækkandi sól, að frostið sem einkennir fasteignamarkaðinn um þessar mundir fari að þiðna.“