Categories
Fréttir

„Kindur lesa hvorki lög né reglugerðir“

Deila grein

25/04/2023

„Kindur lesa hvorki lög né reglugerðir“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, kom inn á umræðuna um sauðfé og sjúkdóma í kjölfar riðusmita í Miðfjarðarhólfinu í störfum þingsins.

„Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé sem veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Það er ekki hægt að bólusetja fyrir honum og sjúkdómurinn er því erfiður viðureignar. Sú aðferð sem hefur verið notuð hér á landi þegar upp kemur riða á bæ er að slátra öllu fé á bænum og fara í jarðvegsskipti; hreinsa, brenna og sótthreinsa. Þetta er mjög íþyngjandi skref fyrir alla sem málið varðar,“ sagði Lilja Rannveig.

Sagði hún að fundin sé arfgerð til að uppræta riðuna, þ.e. að hún sé verndandi gegn riðu.

„Mjög mikilvægt er að við styðjum við frekari rannsóknir og vinnum að því að gera stofninn ónæman gegn riðunni. Þetta mun taka nokkur ár,“ sagði Lilja Rannveig.

Minnti Lilja Rannveig á að önnur úrræði sem nýtt hafi verið, til þess að hindra framgang riðu og annarra sjúkdóma, sé að skipta landinu upp í sóttvarnahólf sem eru 25 svæði.

„Miðfjarðarhólf er eitt þeirra. Þeim er skipt upp eftir náttúrulegum hindrunum eins og ám, en líka með girðingum. Til að koma í veg fyrir dreifingu sjúkdóma er almennt gert óheimilt að flytja sauðfé á milli þessara hólfa. En kindur lesa hvorki lög né reglugerðir og ef þær fá tækifæri til þá fara þær oft yfir girðingarnar, ef þær komast. Því er mjög mikilvægt að við höfum eftirlit með girðingunum. Það tekur langan tíma, því þetta eru mörg hundruð kílómetrar, en það þarf að hafa eftirlit og halda þeim við þegar þörf er á. Varnarlínugirðingar eiga alltaf að vera í toppstandi,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Þessa dagana er mikið rætt um sauðfé og sjúkdóma. Umræðan kemur í kjölfar riðusmita í Miðfjarðarhólfi núna í aprílmánuði. Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé sem veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Það er ekki hægt að bólusetja fyrir honum og sjúkdómurinn er því erfiður viðureignar. Sú aðferð sem hefur verið notuð hér á landi þegar upp kemur riða á bæ er að slátra öllu fé á bænum og fara í jarðvegsskipti; hreinsa, brenna og sótthreinsa. Þetta er mjög íþyngjandi skref fyrir alla sem málið varðar. Áður höfum við ekki séð fram á að hægt væri að nýta neina aðra aðferð til að uppræta sjúkdóminn, en núna hefur fundist arfgerð sem er verndandi gegn riðu. Mjög mikilvægt er að við styðjum við frekari rannsóknir og vinnum að því að gera stofninn ónæman gegn riðunni. Þetta mun taka nokkur ár. Meðal annarra úrræða sem gripið hefur verið til, til þess að hindra framgang riðu og annarra sjúkdóma, er að skipta landinu upp í sóttvarnahólf sem eru 25 svæði. Miðfjarðarhólf er eitt þeirra. Þeim er skipt upp eftir náttúrulegum hindrunum eins og ám, en líka með girðingum. Til að koma í veg fyrir dreifingu sjúkdóma er almennt gert óheimilt að flytja sauðfé á milli þessara hólfa. En kindur lesa hvorki lög né reglugerðir og ef þær fá tækifæri til þá fara þær oft yfir girðingarnar, ef þær komast. Því er mjög mikilvægt að við höfum eftirlit með girðingunum. Það tekur langan tíma, því þetta eru mörg hundruð kílómetrar, en það þarf að hafa eftirlit og halda þeim við þegar þörf er á. Varnarlínugirðingar eiga alltaf að vera í toppstandi.“