Categories
Fréttir Greinar

Mikilvægi Eddu

Deila grein

25/04/2023

Mikilvægi Eddu

Íslenska þjóðin er bókaþjóð og eru bók­mennt­ir samofn­ar sögu okk­ar og tungu­máli. Við vor­um ein­mitt minnt á það í liðinni viku þegar Hús ís­lensk­unn­ar var vígt með form­leg­um hætti og því gefið hið fal­lega nafn Edda. Í Eddu verða hand­rit­in, okk­ar merk­asti menn­ing­ar­arf­ur og fram­lag til heims­bók­mennta, geymd. Hand­rit­in og sá vitn­is­b­urður sem þau hafa að geyma um fræðastarf, mynd­list­ar- og menn­ing­ar­sögu, trú­mál, sagna­arf og ýmis hugðarefni fólks á þess­um fyrri tím­um í sögu þjóðar­inn­ar eru stór­merki­leg. Sú staðreynd að öll hand­rit­in í safni Árna Magnús­son­ar séu á varðveislu­skrá Menn­ing­ar­mála­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna yfir Minni heims­ins und­ir­strik­ar menn­ing­ar­legt mik­il­vægi þeirra á heimsvísu.

Þetta er staðreynd sem við get­um verið stolt af. Okk­ur ber að auka veg og virðingu menn­ing­ar­arfs­ins enn frek­ar, að sýna hand­rit­in, ræða þau, rann­saka og miðla til kom­andi kyn­slóða. Um 700 hand­rit eru í vörslu á söfn­um í Dan­mörku, en sátt­máli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Dan­merk­ur. Ég tel að fleiri ís­lensk hand­rit eigi að koma til Íslands frá Dan­mörku og hef unnið að auknu sam­starfi ríkj­anna á þessu sviði. Þannig mun Árna­safn við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla taka þátt í nýrri hand­rita­sýn­ingu Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum með lang­tíma­láni á hand­rit­um. Þá munu lönd­in tvö efna til átaks til að styrkja rann­sókn­ir, sta­f­ræna end­ur­gerð og miðlun á forn­um ís­lensk­um hand­rit­um með sér­stakri áherslu á að styrkja ungt fræðafólk og doktorsnema.

Með Eddu – Húsi ís­lensk­unn­ar munu skap­ast tæki­færi til þess að lyfta menn­ing­ar­arfi okk­ar enn frek­ar en bygg­ing­in mun hýsa starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og Íslensku- og menn­ing­ar­deild­ar Há­skóla Íslands og verður miðstöð rann­sókna og kennslu í ís­lensk­um fræðum: tungu, bók­mennt­um og sögu. Þar verða jafn­framt varðveitt frum­gögn um ís­lenska menn­ingu, þ.e. hand­rit, skjöl, orða- og nafn­fræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í bygg­ing­unni eru ýmis sér­hönnuð rými, svo sem fyr­ir varðveislu, rann­sókn­ir og sýn­ingu á forn­um ís­lensk­um skinn­hand­rit­um sem færa hand­rit­in til al­menn­ings, vinnu­stof­ur kenn­ara og fræðimanna, lesaðstaða fyr­ir nem­end­ur, fyr­ir­lestra- og kennslu­sal­ir og bóka­safn með lesaðstöðu.

Það var orðið löngu tíma­bært að verðugt hús yrði reist til að varðveita hand­rit­in okk­ar og sýna þeim þá virðingu sem þau eiga skilið. Húsið hef­ur fengið frá­bær­ar viðtök­ur, þannig lögðu milli tólf og fjór­tán þúsund manns leið sína á opið hús í Eddu á sum­ar­dag­inn fyrsta til að virða fyr­ir sér þetta nýja heim­ili ís­lenskra bók­mennta og langþráð lög­heim­ili ís­lenskr­ar tungu. Með þeirri glæsi­legu aðstöðu sem fyr­ir­finnst í Eddu erum við bet­ur í stakk búin til þess að taka við fleiri hand­rit­um heim til Íslands og sinna menn­ing­ar­arfi okk­ar enn bet­ur til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. apríl 2023.