Categories
Fréttir

„Klasar hafa sannað að þeir auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun“

Deila grein

13/03/2023

„Klasar hafa sannað að þeir auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana og hefur hann mælt fyrir henni á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögu að uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana. Markmið starfshópsins verði að koma opinberum fyrirtækjum og stofnunum fyrir á sama stað til þess að ná fram rekstrarlegri hagræðingu og öðrum samlegðaráhrifum. Unnið verði að uppbyggingu slíks klasa í nánu samstarfi við einkaaðila og sveitarfélög. Starfshópurinn skili tillögu sinni fyrir árslok 2023.“

„Umræða um mikilvægi klasasamstarfs hefur farið vaxandi undanfarin ár því að klasar hafa sannað að þeir auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Nýta má hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana, stuðla að hagræðingu og færa núverandi ástand í þeim málum til betri vegar. Með uppbyggingu opinbers klasa er mögulegt að hagræða enn frekar í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum, t.d. í rekstri stofnana. Opinbert klasasamstarf getur aukið framleiðni og nýsköpun og þannig leitt til verðmætasköpunar,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana getur skilað umtalsverðri rekstrarlegri hagræðingu. Gera mætti ráð fyrir 5.000–6.000 m2 skrifstofuhúsnæði þar sem ynnu 250–300 starfsmenn nokkurra lítilla opinberra fyrirtækja og stofnana. Með slíkri útfærslu mætti ná fram hagræðingu fyrir þau samlegðaráhrif sem yrðu í rekstri þeirra fyrirtækja og stofnana sem þar væru til húsa. Þar má nefna sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis og húsnæðis,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Heppilegast er að klasi sem þessi verði á slóðum þar sem nýta megi umferðarmannvirki betur, í þeim skilningi að umferð að klasanum verði í gagnstæða átt við mestan umferðarþunga nú svo að takast megi að létta á honum. Þá er rétt að horft verði til staðsetningar þar sem finna megi hágæðaalmenningssamgöngur. Þannig nýttust umferðarmannvirki vel, sem væri stórt umhverfismál. Mælst er til þess að starfshópurinn taki tillit til allra þessara þátta við tillögugerð sína,“ sagði Ágúst Bjarni.